26. mars. 2014 09:07
Sjávarútvegurinn og starfsgreinar tengdar honum er kannski eitt best varðveitta leyndarmál Akraness nú um stundir. Það fer ekki mikið fyrir þeirri staðreynd að fjöldi mjög öflugra sjávarútvegsfyrirtækja starfar í bænum. Fjölbreytnin er ótrúlega mikil allt frá veiðum, vinnslu afurða og til framleiðslu á búnaði auk ýmissar þjónustu sem tengist greininni. Mikil og breið verkþekking er til staðar í bæjarfélaginu enda hvílir atvinnugreinin á gömlum merg. Tölur sem Skessuhorn hefur tekið saman sýna að hátt í 600 störf eru nú í sjávarútvegi á Akranesi og tengdum greinum og velta þeirra a.m.k. 16 milljarðar króna. Umsvif fyrirtækjanna, fjöldi starfa og velta þeirra hefur aukist hröðum skrefum á allra síðustu árum. Allt bendir til að sú þróun haldi áfram af miklum krafti.
Með Skessuhorni og Morgunblaðinu í dag fylgir sérblað um fyrrnefndar atvinnugreinar á Akranesi.