Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. mars. 2014 10:43

Snæfellskonur komnar í úrslit eftir glæsilegan sigur á Val

Gríðarleg spenna einkenndi oddaleik Snæfells og Vals sem fram fór í Stykkishólmi í gærkvöld. Eins og búist var við léku Snæfellskonur án hinnar bandarísku Chynnu Brown í leiknum en hún glímir enn við meiðsli. Hugrún Eva Valdimarsdóttir snéri hins vegar aftur í Snæfellsbúninginn í gær eftir meiðsli. Eftir mikinn spennuleik stóðu Hólmarar uppi sem sigurvegarar og unnu þær leikinn 72:66. Liðið hefur þar með tryggt sér sæti í úrslitum en þar mætir það liði Hauka.

 

 

Fyrsti leikhluti var sveiflukenndur í meira lagi í gær og náðu gestirnir forystu strax í byrjun 2:8. Snæfellskonur spýttu þá í lófana og þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum var staðan orðin 21:15 þeim í vil. Valskonur bættu þó um betur á síðustu mínútunum með tíu stiga sveiflu og leiddu eftir leikhlutann 21:25. Gestirnir héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og héldu forskotinu allan leikhlutann. Snæfellskonur voru þó ekki langt undan en staðan í hálfleik var 39:42 fyrir Val. Spennan var í algleymingi í þriðja leikhluta. Eftir að Snæfell náði að jafna 43:43 á upphafsmínútum leikhlutans náði Valur forskotinu aftur og kom því upp í sex stig 46:52 þegar tæpar þrjár og hálf mínúta var eftir. Aftur náðu heimamenn að minnka muninn með baráttuleik og var munurinn einungis eitt stig þegar þriðja leikhluta lauk, 52:53 fyrir Val.

 

Lokaleikhlutinn rennur eflaust Snæfellskonum seint úr minni. Valskonur héldu áfram að leiða með fáeinum stigum og var staðan 60:62 þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Snæfell náði þá að jafna leikinn með vítaskotum frá Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur, sem átti stórleik í gær, og var staðan því 62:62. Enn og aftur komust Valskonur yfir, nú í 62:66, og ein og hálf mínúta eftir. Alda Leif Jónsdóttir skorar þá þriggja stiga körfu fyrir Snæfell og minnkar muninn í 65:66. Valskonur fara í sókn en með góðum varnarleik nær Hildur Björg Kjartansdóttir að stela boltanum. Snæfell fer í sókn og er brotið á Hildi sem fær tvö vítaskot að launum. Hún setur bæði skotin niður og kemur Snæfelli yfir 67:66, í fyrsta skipti síðan í fyrsta leikhluta. Snæfell skellti þar með í lás í vörninni og náðu Valskonur ekki að nýta sóknartækifæri sín það sem eftir lifði leiks. Það gerðu Snæfellskonur hins vegar sem voru ítrekaðar sendar á vítalínuna af Valskonum. Vítin nýttu þær vel og vannst að endingu kærkomin 72:66 sigur. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í leikslok og tók Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells nokkur breikdansspor á miðju vallarins af fögnuði, enda sjálfsagt létt eftir erfitt einvígi við Val. Snæfell er þar með komið í úrslit Dominos deildarinnar í fyrsta skipti í sögu kvennaboltans í Stykkishólmi. Þar mæta þær liði Hauka og eiga Snæfellskonur heimaleikjaréttinn í einvíginu. Vinna þarf þrjá sigra til að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

 

Atkvæðamest í liði Snæfells í gær var Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir en hún skoraði 21 stig og tók 12 fráköst. Næstar komu Hildur Sigurðardóttir með 19 stig og 11 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir með 15 stig og 13 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir með 14 stig og 11 fráköst og Alda Leif Jónsdóttir með 3 stig og 7 fráköst.

 

Körfuknattleikssamband Íslands á eftir að gefa út dagskrá fyrir úrslitaeinvígið en búast má við að það hefjist um helgina. Fyrsti leikurinn í einvíginu fer fram í Stykkishólmi.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is