30. mars. 2014 12:29
Á föstudaginn lauk talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning Elkem Ísland á Grundartanga og Samtaka atvinnulífsins við Verkalýðsfélag Akraness. Skrifað var undir samninginn með fyrirvara viku áður. Á kjörskrá voru 134. Alls greiddu 111 atkvæði sem gerir 82,8% kjörsókn. Já sögðu 77, eða 70%, nei sögðu 33 eða 29% starfsmanna sem kusu. Einn seðill var auður. Samningurinn telst því samþykktur. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segist ánægður með þessa niðurstöðu, enda er að hans mati um mjög góðan samning að ræða. Samning sem gefur starfsmönnum launahækkun frá rúmum 30.000 krónum upp í tæpar 36.000 krónur í heildarhækkun á mánuði. „Það er morgunljóst að þetta er umtalsvert betri samningur en samræmda launastefnan á hinum almenna vinnumarkaði kvað á um,“ segir Vilhjálmur. Segja má að samningar hafi náðst á elleftu stundu, eða fjórum dögum áður en boðað verkfall átti að koma til framkvæmda.