Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. maí. 2014 03:02

"Kerfisins héraðshöfðingjar" svara fyrir sig

Almennt hafa Borgfirðingar nú þungar áhyggjur af stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands, einkum er snýr að mögulegri sameiningu við Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Þá segja heimildamenn Skessuhorns innan LbhÍ að vinnuandi og starfsumhverfi allt sé laskað vegna þeirrar óvissu sem hugsanleg sameining leiðir af sér, en hún hefur vofað yfir stofnuninni a.m.k. síðan í ágúst í fyrra. Segja starfsmenn sem Skessuhorn hefur rætt við að búið sé að reka fleyg milli annars vegar hluta akademískra starfsmanna LhhÍ og hins vegar annarra starfsmanna. Þá hefur ástandið ekki bætt samskipti milli starfsstöðva háskólastofnunarinnar sem hefur vinnustöðvar á þremur stöðum; Hvanneyri, Keldnaholti og Reykjum. Heimafólk í Borgarfirði, ásamt m.a. öllu sveitarstjórnarfólki í Borgarbyggð og öllum þingmönnum Norðvesturkjördæmis, er á móti sameiningu LbhÍ og Háskóla Íslands. Athygli vekur að sjálfstæðismenn í héraði eru í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa hvað harðast framgöngu Illuga Gunnarssonar í málinu. Kom það skýrt fram við opnun kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð í gærkvöldi.

Illuga Gunnarssyni barst óvænt liðsinni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur flokksfélaga síns og fyrrverandi menntamálaráðherra sem ritaði grein í Fréttablaðið 5. maí síðastliðinn. Þar talaði Þorgerður fyrir sameiningu háskóla og sendi Borgfirðingum tóninn. Gekk hún svo  langt að kalla þá "kerfisins héraðshöfðingja". Deilurnar um framtíð LbhÍ ganga þvert á flokka sem innan þeirra. Magnús B Jónsson fyrrverandi rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, hefur skrifað greinar og beitt sér hart í "sjálfstæðisbaráttu" Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

"Merk menntastofnun látin molna niður"

Í grein sem Magnús B Jónsson skrifar hér á Skessuhornsvefinn í dag er hann ómyrkur í máli í garð menntamálaráðherra. Hann segir m.a: "Það er lúalegt af ráðherra að stilla forsvarsmönnum skólans, starfsfólki hans og nemendum frammi fyrir tveim kostum. Sameinist Háskóla Íslands - eða sveltið ella. Það er einnig ámælisvert af öllum þeim sem þetta mál varðar, að láta það afskiptalaust, að ein merkasta menntastofnun landsins skuli látin molna niður eins og enginn sé morgundagurinn. Greinaskrif á borð við pistil fyrrverandi menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þjóna engum tilgangi öðrum en að villa um fyrir hinni raunverulegu stöðu og trufla málefnalega umræðu," segir Magnús B Jónsson. Lesa má grein hans hér.

 

Ráðuneytið svarar ekki fyrirspurnum Skessuhorns

Því má við þetta bæta að meira en mánuður er síðan Skessuhorn sendi nokkrar skriflegar fyrirspurnir til menntamálaráðuneytis um málefni LbhÍ. Fyrirspurnum blaðsins hefur ekki verið svarað, þrátt fyrir ítrekaða beiðni um slíkt. Rennir það stoðum undir þær heimildir blaðsins sem segja að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra ætli ekki að tjá sig um sameiningu LbhÍ og HÍ fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar 31. maí næstkomandi. Þá verði látið sverfa til stáls, á hvorn veginn sem verður. 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is