Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. ágúst. 2014 01:35

Háskólalestin á Snæfellsnesi í vikulokin

Háskólalest Háskóla Íslands mun verða á Snæfellsnesi dagana 29. og 30. ágúst næstkomandi. Þar mun hún bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa í Ólafsvík og Grundarfirði. Þetta er fjórða árið sem lestin fer um og á að baki tuttugu ferðir um landið. „Við reynum að fara ekki hringinn í kringum landið heldur fram og til baka og reynum að passa að fara alltaf í hvern landshluta á ferðum okkar. Við stoppum í minni bæjarfélögum sem eru ekki í alfaraleið,“ segir Guðrún Bachman lestarstjóri Háskólalestarinnar í samtali við blaðamann. Hún segir að í ferðum lestarinnar sé lögð áhersla á lifandi og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna og segir ekkert annað sambærilegt til á landinu. „Annars vegar erum við með vísindaveislu og hins vegar námskeið í Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur. Á föstudeginum munum við bjóða nemendum í efstu bekkjum grunnskóla Snæfellsbæjar og Grunnskóla Grundarfjarðar að sækja námskeið í Háskóla unga fólksins meðal annars í eðlisfræði, japönsku, stjörnufræði, blaða- og fréttamennsku, Legó forritun, svo eitthvað sé nefnt. Kennt verður í Ólafsvík. Á laugardeginum verður svo slegið upp vísindaveislu í Grundarfirði, sem er stór skemmtun fyrir almenning. Þar verður meðal annars stjörnutjald og fullt af tækjum og tólum sem hægt er að prófa. Sprengjugengið landsfræga verður með í för og sýnir kl. 12.30 og 14.30 og sýningar verða í hinu sívinsæla stjörnutjaldi á 30 mínútna fresti. Það hefur alltaf verið troðið út úr dyrum á vísindaveislu, mikið fjör og mikið gaman,“ segir hún. Háskóli unga fólksins hefur starfað í tíu ár og tekur 350 nemendur á hverju ári. Guðrún segir að það taki ekki nema sólarhring að fullbóka í þau pláss. „En það er gaman að geta líka boðið börnum úti á landi að taka þátt og kynna starfið fyrir þeim,“ bætir hún við.

 

 

Góðir gestir með í för

Ísland er í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Af því tilefni hafa valin byggðarlög á Norðurlöndum tekið þátt í þróun nýsköpunar- og menntunarverkefnisins Biophilia, sem Háskóli Íslands hefur unnið að undanfarin ár, ásamt tónlistarkonunni Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg. „Háskólalestin er því orðin að samnorrænu verkefni. Önnur Norðurlönd muna taka þátt í að móta í sínu landi svokallaða þekkingarlest, að fyrirmynd Háskólalestarinnar. Þess vegna munu góðir gestir, fulltrúar norrænna mennta- og vísindastofnana, slást í för lestarinnar á Snæfellsnesið. Þeir ætla að fylgjast með starfinu og innleiða svo eitthvað svipað í sínum löndum. Það verður því nóg um að vera, kvikmyndað verður á staðnum og unnið að gerð heimildarmyndar.“ Guðrún segir það mikinn heiður að önnur Norðurlönd séu að taka upp svipað fyrirkomulag og Háskólalestin er. „Einnig verður með í för gestur frá Austurríki, vöggu barnaháskóla, sem ætlar að kynna sér starfið. Það er því greinilegt að það er að vekja mikla athygli hvernig við erum að gera hlutina með Vísindalestinni,“ segir Guðrún að lokum. Vísindaveisla Háskólalestarinnar verður haldin í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði kl. 12 til 16. Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is