Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. ágúst. 2014 11:28

Telja neysluvatn úr Grábrókarveitu ónothæft til matvælaframleiðslu

Matvælaframleiðendur í Borgarnesi eru óhressir með grugg sem af og til kemur með neysluvatninu frá veitunni úr Grábrókarhrauni í Norðurárdal, en veita frá þremur borholum þar var tekin í notkun í ársbyrjun 2007. Kristján Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri matvælafyrirtækisins Eðalfisks í Borgarnesi, segir að vegna gruggskota í vatninu þurfi að sía vatnið sem notað er við framleiðsluna. Kristján segir að aldrei hafi verið jafn mikið um grugg í vatninu og á þessu ári frá því veitan var tekin í notkun 2007. Alls hafi á fyrstu sex mánuðum ársins þurft að skipta 27 sinnum um síur sem hafi verið orðnar stíflaðar vegna gruggs. Kristján segist mjög óhress með að hreinleiki vatnsins sé ekki tryggari. Hann segir að til vinnslunnar í Eðalfiski hafi alltaf verið síað neysluvant og þess gætt að það sé hreint og gott. Hann hafi þó orðið fyrir tjóni vegna þessa og m.a. tvívegis misst af því að koma sendingu á laxi í flug til Bandaríkjanna, þegar tvö af þessum „skítaskotum,“ sem Kristján kallar það þegar gruggið berst með neysluvatninu, en Eðalfiskur framleiðir nær eingöngu inn á Bandaríkjamarkað. Kristján segir að vatnið hafi ítrekað farið yfir gildi sem reglugerð gerir ráð fyrir um hreinleika og það mjög mikið yfir í einstaka tilfellum. „Við matvælaframleiðendur í Borgarnesi getum ekki búið við þetta. Það eru fleiri en ég sem hafa orðið fyrir tjóni af þessum sökum,“ segir Kristján í Eðalfiski. Hann segir að úrbóta hafi verið lofað árið 2008 en ekki hafi ennþá verið staðið við það.

Vatnsgæðin fyrir almenna notendur

Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, sem á og rekur veituna, segir að unnið sé að gagnaöflun varðandi neysluvatnsmálin. Jafnframt að ráðgerður sé fundur með fulltrúum sveitarfélagins og hagsmunaaðilum í næsta mánuði. Eiríkur segir að vatninu sem notað er í Borgarnesi og komi frá borholum í Grábrókarhrauni fylgi grugg úr borholunum. Það sé þó innan viðmiðunarmarka sbr. reglugerð um neysluvatn um að hámarksgildi sé ekki hærra en 1,0 NTU. Er þar miðað við þarfir hins almenna neytanda. „Það hefur komið fyrir að gruggið mælist hærra en þá höfum við lokað fyrir þessar borholur og notum þá eingöngu vatnsbólin sem eru sunnan við Borgarfjarðarbrú á Seleyri en þar er ekki hátt NTU. Dælustöðin í Grábrókarhrauni er síðan sett aftur inn á kerfið þegar gruggið hefur minnkað. Áður en það er gert fer fram skolun á lögninni niður að lokahúsi við bæjarmörkin. Þetta er gert til að fyrirbyggja að þetta vatn komist til notenda.“

 

Ástæður aukins gruggs í borholunum

Eiríkur segir að ástæður þess að gruggið eykst í borholunum virðist vera breytingar á grunnvatnsborði vegna rigninga eða þurrka, jarðskjálfta eða rafmagnsleysis. Hann segir að þó að gruggið sé innan viðmiðunarmarka reglugerðar sé það þó þannig að það vilji safnast fyrir í kerfinu. Stofnæðin er því skoluð og er þá farið eftir ákveðnu verklagi. Ennfremur er dælingu úr holunum haldið á föstum hraða til þess að draga úr gruggmyndun. Þar sem NTU gildi er innan viðmiðunarmarka neysluvatnsreglugerðar álíta forsvarsmenn OR – Veitna, að vatnið sé innan þeirra marka sem sett eru en eigi að síður er verið að vinna að lausn sem getur bætt gæði vatnsins enn frekar. Er þá helst litið til þriggja lausna. Þær eru eftirfarandi: 1. Sandsía þar sem vatninu er veitt í sandfilter í einskonar sundlaug og vatnið tekið undan botninum og á þá að vera hreint. 2. Vélrænn filter þar sem vatnið fer inn í silinder sem er með fínum filter og síast þar. Unnið er að prófunum og beðið niðurstöðu framleiðanda filtersins. 3. Bora nýjar neysluvatnsholur með annarri aðferð en notuð var í upphafi.

 

Nauðsyn tvöfalds síukerfis

Eiríkur segir að engin af fyrrgreindum lausnum sé þó trygg til árangurs þar sem gruggið er mjög fínt og kostnaður gæti orðið mjög mikill. Því hefur verið horft til þess að þeir aðilar sem þurfa sérstakt gæðavatn, umfram þær kröfur sem reglugerðin setur, komi upp tvöföldum síunarbúnaði hjá sér þannig að ekki þurfi að stoppa vatnsnotkun þegar skipt er um síu. Þetta geri aðilar annars staðar á veitusvæði OR - Veitna t.d. matvæla- og drykkjarvöruframleiðendur í Reykjavík. Eiríkur segir að því miður hafi Eðalfiskur orðið fyrir tjóni vegna gruggs í vatni. OR - Veitur hafa bent forsvarsmönnum Eðalfisks á mikilvægi þess að fyrirtækið sem sérstakur neytandi, þ.e. matvælaframleiðandi, tryggi sérstaka og aukna síun vatns, komi sér t.d. upp tvöföldum filterbúnaði og að hagsmunir þess séu m.a. fólgnir í því að tryggja að gæði vatns í framleiðslunni séu stöðug.

Kristján í Eðalfiski segir að með þessu sé OR að velta ábyrgðinni yfir á viðskiptavininn. Honum finnst neysluvatnsmálunum ekki hafa verið nægur gaumur gefinn og furðar sig t.d. á því að þau virðist ekki hafa komið til kasta heilbrigðisnefndar. Þá vill hann meina að tíðni mælinga á gæði vatnsins uppfylli ekki ákvæði um þær í reglugerðum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is