02. september. 2014 06:01
Óvenjulegur viðburður átti sér stað á Hvalfjarðardögum sem stóðu yfir um helgina. Þá var farið svokallað Helgusund í Hvalfirðinum en í því er synt í kjölfar Helgu Jarlsdóttur, sem margir þekkja sem lesið hafa Harðar sögu og Hólmverja, úr Geirshólma upp í Helguvík. Leiðin er um 1600 metrar. Viðburðurinn var á vegum Sjóbaðsfélags Akraness í samvinnu við menningarmálanefnd Hvalfjarðarsveitar. Rúmlega tveir tugir þreyttu sundið, þar af fimm úr Sjóbaðsfélagi Akraness og margir af fremstu sjósundsmönnum landsins. Björgunarfélag Akraness sá um að flytja sundfólkið út í Geirshólma og fylgdu því síðan eftir meðan á sundinu stóð. Var það mál manna að afar vel hafi tekist til, enda veður einstaklega gott, sléttur og tær sjór og umhverfið engu líkt. Stefnt er að því að Helgusund verði framvegis árlegur viðburður og hluti af Hvalfjarðardögum.