Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. september. 2014 07:08

Makrílveiðar smábáta stöðvaðar eftir morgundaginn - reiðarslag segja smábátasjómenn

Á morgun, fimmtudaginn 4. september, er síðasti dagurinn sem smábátum verður leyft að veiða makríl á þessari vertíð. Koma þessi tíðindi mönnum í opna skjöldu en mokveiði hefur verið og búist við að leyft yrði að veiða langt fram í september. Samkvæmt reglugerð atvinnumálaráðueytisins, sem birt var í Stjórnartíðindum í dag, segir: „Frá og með 5. september 2014 eru makrílveiðar með línu og handfærum bannaðar sbr. 1. tölulið 2. gr. reglugerðar nr. 376/2014, um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2014, með síðari breytingum.“ Sjómenn krókabáta sem stunda makrílveiðar eru vægast sagt undrandi yfir vinnubrögðum stjórnvalda og hversu skamman tíma þeir hafa til að ljúka veiðum. Flestir gerðu þeir ráð fyrir að veitt yrði langleiðina út september. Skessuhorn ræddi nú síðdegis við þrjá makrílveiðisjómenn á bryggjunni  í Ólafsvík og voru þeir í einu orði sagt rasandi yfir þessari fyrirvaralausu stöðvun, enda er mokveiði á makríl í hafnarkjaftinum í Ólafsvíkurhöfn.

 

 

„Ég má ekki vera að því að tala við þig“

Guðbjartur Gissurarson skipstjóri á Emmu II SI var ósáttur og vildi skora á ráðherra sjávarútvegsmála að auka kvótann hið snarasta, enda mjög blóðugt að hætta í mokveiði. „Þetta er fíflaskapur i ráðamönnum og ekkert annað. Að auki er makríllinn ránfiskur sem étur seiðin frá LÍÚ! Ég verð að drífa mig út aftur,“ sagði Guðbjartur; „það er skammur tími til stefnu og mokveiði  á miðunum,“ bætti hann við og var þar með rokinn um borð í bát sinn.

 

 

 

 

Á að veiða sem mest af þessum ránfiski

Þorvarður Jóhann Guðbjartsson útgerðamaður Guðbjarts SH, var alls ekki ánægður með þau tíðindi að stöðva makrílveiðar svona fyrirvaralaust. „Auðvitað á að veiða meðan fiskurinn er hér alveg upp í bæjarlæknum,“ segir Þorvarður. „Það er mokveiði og ég skil ekki þessa ákvörðun en það var svo sem viðbúið í þessum skrípaleik stjórnmálamanna,“ bætir Þorvarður við. „Makrílveiðarnar hafa komið vel út í sumar hjá okkur þrátt fyrir að vera aðeins um einn mánuð að veiðum, er aflinn kominn vel yfir 100 tonn. Auðvitað á að veiða sem mest af þessum ránfiski,“ sagði Þorvarður Jóhann. „Þetta er bara til að bæta gráu ofan á svart. Síðustu ár hef ég gert út tvo báta á línuveiðar en ýsuskerðingin var mikil og er ég aðeins með 68 tonn af ýsu en 457 tonn af þorski og get því ekki gert út annan bátinn á næstu vertíð. Hvernig á að gera út tvo báta með svona litlar heimildir í ýsu,“ spyr Þorvarður og svarar sjálfum sér; „Það er bara ekki hægt. Ég varð að segja upp fjórum starfsmönnum hjá mér út af þessari vitleysu fiskifræðinga,“ sagði hann að lokum.

 

 

 

 

Fengu bara fjóra daga

„Þetta er bara fáránlegt og blóðugt,“ segir Ólafur Friðbert Einarsson skipstjóri á Ólafi HF. „Þetta er tóm steypa að hætta í svona mokveiði og einmitt þegar makríllinn er sem verðmætastur. Við vorum að bíða eftir löndun og fengum 300 kíló í hafnarkjaftinum á meðan við vorum að bíða. Það er makríll allsstaðar,“ segir Ólafur ennfremur og bætir við að ekki megi gleyma þeim strandveiðibátum sem ætluðu á makrílveiðar en fá einungis bara fjóra daga á veiðum. „Þetta kostaði þá margar miljónir að græja sig á þessar veiðar. Ég get ekki séð betur en þetta sé ólögleg aðgerð stjórnvalda að stöðva þetta svona fyrirvaralaust.“ Aðspurður um aflabrögð í sumar segir Ólafur þá vera komna með 180 tonn. „Ég verð að drífa mig út aftur,“ sagði Ólafur og tók stefnuna á miðin.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is