04. september. 2014 09:17
Skagastúlkur töpuðu enn einum leiknum í Pepsídeildinni í sumar þegar nágrannarnir úr Aftureldingu komu í heimsókn á Akranesvöll í gærkveldi. Lokatölur urðu 3:0 og sitja Skagastúlkur á botni deildarinnar með aðeins eitt stig. Með tapinu má segja að ÍA sé fallið í 1. deild þegar þrjár umferðir eru eftir af mótinu, þótt tölfræðilega gætu þær enn jafnað Aftureldingu að stigum sem með sigrinum komst upp úr fallsæti og er nú með tíu stig í áttunda sæti deildarinnar einu stigi meira en FH.
Skagakonur voru ekki að spila vel í gær og sami krafturinn ekki í leik liðsins eins og fyrr í sumar. Mikið var um mislukkaðar sendingar og þeim gekk illa að halda boltanum innan liðsins. Gestirnir úr Aftureldingu skoruðu sitt fyrsta mark strax á áttundu mínútu og bættu síðan við tveimur mörkum rétt fyrir miðjan seinni hálfleikinn.
ÍA fer næst til Eyja og mætir Eyjastúlkum nk. sunnudag. Skagakonur leika síðan gegn liðunum á toppi deildarinnar í síðustu tveimur umferðunum, Breiðabliki og Stjörnunni.