Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. september. 2014 03:50

Göngum til góðs - landssöfnun RKÍ hefst í dag

Landssöfnun Rauða krossins á Íslandi, „Göngum til góðs,“ hefst í dag, fimmtudaginn 4. september, og stendur hún út helgina, til miðnættis sunnudaginn 7. september. „Vakin er sérstök athygli á nýbreytni á Íslandi, sem er  „söfnunarappið“.  Nú getur almenningur látið gott af sér leiða með því að safna fé í rafrænan bauk. Appið er að finna í App Store fyrir iPhone notendur og Google Play fyrir Android notendur. Leitarorðið er „söfnun.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá RKÍ. Nú er opið fyrir söfnunarsíma; hægt er að hringja í 904 1500 til að leggja fram 1500 krónur, 904 2500 til að leggja fram 2500 krónur og 904 5500 til leggja fram 5500 krónur. Þá er einnig minnt á söfnunarreikninginn, 0342-26-12, kt. 530269-2649.

 

 

 

 

Landssöfnunin ber yfirskriftina „Göngum til góðs.“ Er þar vísað til sjálfboðaliða Rauða krossins sem ganga milli húsa um allt land með rauða söfnunarbauka í hönd til að safna fé í gott málefni. Langflestar deildir Rauða krossins ganga til góðs á laugardag, en nokkrar hefja göngu sína í dag.

Í ár verður safnað fyrir innanaldansverkefnum Rauða krossins. Verður lögð sérstök áhersla á að efla neyðarvarnir og áfallahjálp – sem er ekki síst mikilvægt í ljósi jarðhræringa og eldvirkni í norðanverðum Vatnajökli, með tilheyrandi hættu á hamförum.

 

Enn fremur verður lögð áhersla á að styrkja eftirtalin verkefni frekar í sessi:

 

-Heimsóknarvinir: Sjálfboðaliðar Rauða krossins veita um 900 manns félagsskap, nærveru og hlýju í viku hverri. Með því er reynt að sporna við félagslegri einangrun, sem hefur færst í aukana á undanförnum árum, sérstaklega meðal eldri borgara og öryrkja.

-Fatasöfnun: Einn helsti tekjuliður Rauða krossins á síðasta ári var fatasöfnun og fatasala. Starfið er ómetanlegt hjá félaginu. Fataverslanir Rauða krossins selja notuð föt og úthluta einnig fötum til þeirra sem þurfa á þeim að halda.

-Frú Ragnheiður: Skaðaminnkunarverkfnið Frú Ragnheiður hefur reynst einstaklega vil fyrir jaðarhópa samfélagsins. Frú Ragnheiður er sérútbúinn sjúkrabíll sem veitir útigangsfólki, fíklum og heimilislausum nauðsynlega heilsuvernd – án fordóma eða annarra kvaða.

 

Innanlandsverkefni Rauða krossins eru mun fleiri og eru þau öll brýn. Þar á meðal má minnast á fjölskylduhjálpina, sem veitir ráðgjöf og leiðsögn fyrir fjölskyldur í vanda. Rauði krossinn rekur Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni. Skyndihjálparnámskeið Rauða krossins bjarga mannslífum. Um 6500 Íslendingar læra skyndihjálp hjá Rauða krossinum á ári hverju. Neyðarsíminn 1717 er oft síðasta athvarf þeirra sem eiga um sárt að binda. Neyðarsíminn fær um 14 þúsund símtöl á hverju ári og í símann svarar um 100 manna hópur sérþjálfaðra sjálfboðaliða.

 

Eitt mikilvægasta verkefni Rauða krossins á Íslandi er aðstoð við innflytjendur. Býður félagið upp á margvíslega aðstoð sem miðar að aðlögun innflytjenda í íslenskt samfélag. Sérstakt átaksverkefni hefst á þessu ári gegn fordómum í garð innflytjenda. Niðurstöður skýrslunnar „Hvar þrengir að?“ sýndu glöggt að innflytjendur búa við sífellt minna umburðarlyndi á Íslandi. Er það svipuð þróun og hefur sést á meginlandi Evrópu. Með verkefninu ætlar Rauði krossinn að taka skref í rétta átt til að uppræta fordóma. Vegna þeirra upplifa innflytjendur sig félagslega einangraða, fá síður atvinnu auk þess sem börn innflytjenda eiga erfitt með aðlögun að íslensku skólakerfi.

 

Rauði krossinn hefur og mun áfram veita heilsugæslu á hjólum í Sómalíu og Líbanon. Sendifulltrúar hafa undanfarið aðstoðað í baráttunni gegn e-bólu faraldri í Sierra Leone. Í Malaví er unnið að brunnagerð, eflingu heilsugæslu og aðgengi barna að menntun. Sjálfboðaliðar Rauða krossins unnu þrekvirki síðastliðinn vetur með því að útvega hjálpargögn og hlý föt í Hvíta-Rússlandi, þegar einn erfiðasti vetur í manna minnum geisaði. Á veraldarvakt Rauða krossins eru um 200 sendifulltrúar ætíð reiðubúnir að bregðast við hamförum og öðrum áföllum um allan heim.

 

„Það er einlæg von Rauða krossins að sem flestir sjái sér fært að leggja landssöfnuninni lið. Það er ekki tilviljun að Rauði krossinn er orðinn að samheiti fyrir neyðaraðstoð og hjálparstarf á Íslandi. Sú ábyrgð og það orðspor sem af félaginu fer er mikilvægasta eign Rauða krossins. Undir þeirri ábyrgð, og því orðspori, ætlar Rauði krossinn að standa um ókomna tíð,“ segir að endingu í tilkynningu frá RKÍ.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is