05. september. 2014 09:09
Það var mikið um að vera á hafnarvoginni í Ólafsvík í síðustu viku þegar blaðamaður var það á ferð. Makrílbátarnir komu til lands hver af öðrum drekkhlaðnir spriklandi makríl. Þá voru handfærabátar og dragnótabátar einnig að landa sínum afla. Þegar fréttaritari leit við á hafnarvoginni stóð Hafrún Ævarsdóttir vaktina, en hún er fyrsta konan sem gegnir þessari stöðu í Snæfellsbæ. Hafrún segist vera í afleysingum í sumar og að þetta sé fjörleg og skemmtileg vinnu. Auk þess að starfa í Ólafsvík hefur hún leyst af í Rifi og á Arnarstapa í sumar.
Um makrílveiðarnar segir Hafrún að það sé mjög líflegt í höfnunum og nóg að gera. Karlarnir séu skemmtilegir og hressir þrátt fyrir að vera á veiðum nánast allan sólarhringinn. „Það kemur fyrir að landað sé til klukkan fjögur á nóttunni. Samt er það svoleiðis að það er enginn dagur eins. Alltaf er þó nóg að gera og oftast er rólegra á morgnana. Ég segir bara eins og er að þessi vinna er æði,“ segir Hafrún. Aðspurð um á hvaða höfn í Snæfellsbæ sé skemmtilegast að vinna á, segir Hafrún það vera á Arnarstapa. „Þar er svo mikill stemning og allt gengur hægar þar sem aðeins einn löndunarkrani er. Ekki skemmir fyrir einstök náttúrufegurð og gott veður. Bátar á Arnarstapa koma inn á öllum tímum sólarhrings svo þar vinnst þetta jafnt og þétt.“
Hafrún er einnig virk í björgunarsveitinni Lífsbjörgu í Snæfellsbæ og í sumar hafa verið nokkur útköll sem hún hefur farið í ásamt félögum sínum. Til dæmis þegar leki kom af bátnum Valþóri og þegar Kristinar EA strandaði út af Grundarfirði.