Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. september. 2014 05:01

Misjöfn viðbrögð þingmanna NV kjördæmis við stöðvun makrílveiða

Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns í fyrrakvöld ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra að stöðva með reglugerð veiðar smábáta úr makrílstofninum. Þetta gerir hann á þeirri forsendu að fyrirfram gefinn kvóti þeirra í makríl, 6.800 tonn á þessu fiskveiðiári, sé nú að fullu nýttur. Sjómenn og vinnsluaðilar töldu nær öruggt að bætt yrði nokkrum þúsund tonnum við kvótann í ljósi þess hversu gríðarlega mikið er af makríl upp við strendur landins, ekki síst við Snæfellsnes þar sem bókstaflega landburður hefur verið af þessum nýbúa á miðunum. Í ljósi þess hversu umdeild stöðvun veiða smábátanna er, ákvað ritstjórn Skessuhorns að kalla eftir viðbrögðum þingmanna Norðvesturkjördæmis um málið. Fengu þeir allir í gær svohljóðandi spurningu með ósk um svar í síðasta lagi fyrir hádegi í dag, föstudag: „Hver er ykkar skoðun á stöðvun makrílveiða smábáta frá og með 5. september 2014 með reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins?“ 

Tekur undir rök LS

Þingmenn í Norðvesturkjördæmi svöruðu spurningunni hratt og örugglega. Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG í kjördæminu segir: „Mín skoðun er sú að það sé skynsamlegt að lengja í veiðunum ef engin ofveiði blasir við. Ég tek því að stærstum hluta undir rök Landssambands smábátaeigenda og tel mikilvægt að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu makrílveiða hjá smábátum.“

 

Það var búið að ákveða þetta svona

Elsa Lára Arnardóttir Framsóknarflokki, samflokkskona sjávarútvegsráðherra, sendi blaðinu svar fyrir sína hönd og samflokksmanna sinna í kjördæminu; þeirra Gunnars Braga Sveinssonar, Ásmundar Einars Daðasonar og Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur. Þau verja ákvörðun Sigurðar Inga. Svar Elsu Láru er svona: „Þingmenn Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi vita að makrílveiðar hafa mikla þýðingu fyrir smábátasjómenn. Hins vegar er það svo að í júní sl. fundaði sjávarútvegsráðherra með smábátasjómönnum og gerði grein fyrir því að aflaheimildin yrði 6.817 tonn á þessu ári. Það er talsverð aukning frá í fyrra þegar aflaheimild var í fyrstu ákvörðuð 3.200 tonn en veiðar enduðu í tæplega 4.700 tonnum. Ljóst er að aflanum hefur verið náð og veiðar því búnar. Þingmenn Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi hafa verið í og munu halda áfram viðræðum við sjávarútvegsráðherra vegna málsins,“ segir Elsa Lára.

 

„Ráðherra hefur stuðning minn til að auka kvótann“

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi voru skjótir til svara. Fyrst er hér svar Haraldar Benediktssonar: „Ég hef tekið undir með þeim sem vilja veiða meiri makríl á smábátum og hefur ráðherra fengið slíkar áskoranir. Ég hef ekki yfirsýn yfir hvort allir útgerðarflokkar hafi nýtt sínar heimildir. Ef svo er ekki, þá að láta reyna á að færa á milli flokka – ef það er heimilt samkvæmt lögum,“ segir Haraldur. Hann bætir því við að sjónarmið ráðherra sé að fara eftir þeim kvóta sem hann gaf út – og sýna í verki ábyrga nýtingu á stofninum. „Við getum síðan haft allar skoðanir á hvort stofninn sé rétt mældur og framvegis.  Hitt ber að muna líka að öllum var ljóst hvert magnið var sem útgefið var í kvóta og þegar vel gengur klárast það. Það er skiljanleg gremja manna sem fjárfesta í búnaði og vel gengur að veiða – að verða að hætta. Við getum ekki farið eftir reglum stundum og stundum ekki. En meginmálið er hvort ráðherra getur gefið út meiri heimildir. Hann hefur að sjálfsögðu stuðning minn til þess,“ segir Haraldur.

 

Makríllinn er mikið inngrip í lífríkið

Einar Kristinn Guðfinnsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi svarað á þessa lund: „Það er alveg ljóst að það þarf að taka fyrirkomulag makrílveiðanna til endurskoðunar. Sjálfur hef ég verið þeirrar skoðunar að styrkja þyrfti grundvöll þeirra útgerða sem eru að fiska til vinnslu í landi, svo sem eins og smábátanna, en einnig annarra báta. Eins og mál hafa verið undanfarin ár þá hefur ríkt mikil óvissa á hverju ári og aldrei verið ljóst fyrr en verulega er liðið á vertíðina hvað kemur endanlega í hlut hvers og eins. Þetta gerir það að verkum að menn hafa hvorki getað skipulagt veiðarnar né vinnsluna og þess vegna verið hikandi við að fjárfesta. Þetta er líka brýnt vegna þess að makrílveiðar í svona miklu magni eins og undanfarin ár eru nýtilkomnar og makríll er núna vaðandi á svæðum sem hann sást ekki á áður. Það er enginn vafi á að tilkoma makrílsins er mikið inngrip í lífríkið og getur haft áhrif á aðra veiðistofna, eins og sjómenn hafa bent á. Ég veit að sjávarútvegsráðherra hefur verið að vinna í þessum málum og vonast til að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst,“ sagði Einar Kristinn í svari sínu.

 

Hefði viljað meiri heimildir fyrir smábátana

Guðbjartur Hannesson alþingismaður Samfylkingar í NV kjördæmi svarar: „Ég tel ekki rétt að stöðva veiðar smábáta á makríl nú í byrjun september eins og ráðherra hefur gert. Ég hefði talið eðlilegt að auka heimildir smábáta til makrílveiða og veita þannig tækifæri til að veiða og nýta þann makríl, sem er hér við landsteinana. Samfylkingin hefur talið að úthlutun aflaheimilda úr deilistofnum eins og makríl eigi að vera með öðrum hætti en í eldra fiskveiðistjórnunarkerfi. Um leið höfum við stutt breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu til að styrkja byggðir landsins s.s. strandveiðar, makrílveiðar smábáta, kvótaúthlutun til ákveðinna byggða auk þess að vilja opna kerfið í heild m.a. með almennu kvótaþingi. Þannig studdi ég reglugerðir fyrrverandi ríkisstjórnar um skiptingu aflamarks hvers árs, m.a. um að smábátar fengju drjúga hlutdeild í makrílveiðum. Þó tel ég að sá hlutur hefði átt að vera meiri.  Þá studdi ég heilshugar þá áhersla sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði á að makríll færi til manneldis, sem jók mjög verðmæti aflans og skapaði atvinnu. Ljóst er að óvissa er um hvort lög um stjórn fiskveiða um kvótasetningu aflahlutdeilda eða lög um úthafsveiðar eiga að gilda um makrílinn. Sá ágreiningur og úrskurður Umboðsmanns Alþingis ætti ekki að vera rök fyrir að stöðva veiðar smábáta nú, það mál er í sjálfstæðri skoðun í ráðuneytinu og er væntanlega til skoðunar við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.  Rök fyrrverandi ríkisstjórnar voru að útilokað væri að miða úthlutun aflaheimilda í makríl eingöngu við aflareynslu þriggja liðinna ára, engir alþjóðlegir samningar hefðu náðst um heildarafla úr stofninum og því ekki rétt að binda sig við þá reglu,“ segir Guðbjartur. Hann bætir því við að eins og fram kemur í spurningu Skessuhorns, þá gengur makríllinn mjög nærri landi þessa dagana og því sjálfsagt að leyfa smábátum að nýta hann.  „Þessu til frekari stuðnings er óljóst hver áhrif aukins makríls hafa á vistkerfi sjávar og hvort veiðar hans hafa ekki jákvæð áhrif á aðra þætti vistkerfisins. Því verða fagmenn að svara,“ sagði Guðbjartur.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is