08. september. 2014 01:27
Haraldur Ingólfsson framkvæmdastjóri KFÍA var að vonum ánægður með árangur Skagamanna sem tryggðu sér sæti í Pepsídeild karla á næstu leiktíð eftir sigur á KV á fimmtudaginn. Hann segir að markmiðið í vor hafi fyrst og fremst verið að byggja upp nýtt lið og árangurinn nú sé því umfram þær væntingar sem stjórnin gerði fyrir tímabilið. „Ég er gríðarlega ánægður með árangurinn. Það er ákveðinn léttir sem fylgir því að hafa klárað þetta svona örugglega. Fyrir mótið gerðum við í stjórninni hóflegar væntingar. Ég bjóst sjálfur við að Skagaliðið yrði í toppbaráttunni en að ná að tryggja sér sæti í efstu deild þegar tvær umferðir eru eftir er langt umfram mínar væntingar. Það var alltaf langtímamarkmiðið að komast upp í úrvalsdeild á ný, en stjórnin fól Gulla fyrst og fremst það verkefni að byggja upp nýtt lið þar sem liðið frá því á síðustu leiktíð var vængbrotið eftir lélegt gengi.“
Sjá nánar ítarlega umfjöllun um árangur Skagaliðsins í Skessuhorni á miðvikudaginn.