Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. september. 2014 10:05

Ráðherra á pólitísku blindskeri varðandi sameiningu LbhÍ og HÍ

Sameining Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands hefur verið í umræðunni meira og minna í rúmt ár. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur verið ötull talsmaður sameiningar sem og hluti starfsfólks stofnunarinnar, einkum þó akademískur hópur fólks. Hugmyndin hefur mætt gríðarlegri andstöðu í röðum þingmanna NV kjördæmis, sveitarstjórnarmanna í héraði, Bændasamtaka Íslands og hluta starfsfólks LbhÍ. Af þeim sökum má segja að ráðherra hafi orðið heimaskítsmát með áform sín, hann hafi ekki þingmeirihluta til að knýja sameiningu í gegn, og pólitískt hafi hann orðið undir. Sífellt minni fjárveiting er því til skólans og honum gert að hefja endurgreiðslu taprekstrar undanfarinna ára. Sérstaka athygli þeirra sem fylgjast með málinu, hefur vakið sú staðreynd að hefði komið til sameiningar LbhÍ og HÍ hafði Illugi Gunnarsson lofað 300 milljóna króna framlagi, skilyrtu gegn því að sameining færi fram. Ráðherra hefur staðið við það og þeir peningar hafa því ekki skilað sér. Þvert á móti þarf skólinn að búa við niðurskurð í fjárlögum. Björn Þorsteinsson núverandi rektor skólans er skoðanabróðir Illuga varðandi kosti þess að sameina þessar tvær háskólastofnanir. Hann segir hins vegar pattstöðu í málinu, hugmyndir ráðherra um sameiningu hafi strandað á pólitísku blindskeri.

 

 

 

Ráðherra svarar ekki fyrirspurnum

Það skal tekið hér fram að 28. mars 2014 sendi Skessuhorn skriflega fyrirspurn til menntamálaráðuneytisins vegna málefna sem snerta LbhÍ. Þeim hefur ekki enn verið svarað, hálfum sjötta mánuði eftir að þær voru sendar. Þá hefur menntamálaráðuneytið heldur ekki svarað skriflegri fyrirspurn blaðsins sem send var skömmu síðar, þar sem spurt var hversu langan tíma það tæki að jafnaði að svara fyrirspurnum fjölmiðla! Þar sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra kýs að svara ekki fyrirspurnum Skessuhorns, kemur afstaða hans til sameiningarmála LbhÍ ekki hér fram af fyrstu hendi.

 

Endurgreiða 45 milljónir

Björn Þorsteinson, settur rektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, greindi starfsmönnum LbhÍ frá því á fundi nýverið að vegna aðhaldsaðgerða í rekstri skólans verði tíu störf aflögð og þar af leiðandi komi til uppsagna. Í samtali við bbl.is í gær sagði Björn að nú í september muni stofnunin hrinda í framkvæmd niðurskurðaráætlun sem tekur gildi um næstu áramót. „Með áætluninni teljum við að búið sé að koma fjárhagsáætlun skólans inn fyrir þann fjárhagsramma sem okkur er ætlaður og felst í því að ná endum saman og endurgreiða 35 milljónir í ríkissjóð 2015,“ sagði Björn. Fram kemur að LbhÍ fór talsvert fram úr fjárhagsáætlun á síðasta ári og er skólanum nú gert að greiða tíu milljónir króna til baka í ríkissjóð á þessu ári auk þessara 35 milljóna á næsta ári.

 

 

Uppsagnir

Þá segir rektor að vegna óvissu sem skólinn hafi verið í síðastliðið ár hafi nokkrir starfsmenn þegar sagt upp og horfið til annarra starfa. Það geri að verkum að núverandi fjárhagsár muni verða innan áætlunar. Björn segir í samtalinu við bbl.is að ekki sé búið að segja starfsfólkinu hverjir komi til með að missa starfið en búið sé að greina almennt frá áformunum og að það verði þung spor þegar komi að því að afhenda uppsagnarbréfin. „Það er ömurlegt að sjá að baki fólki sem maður vill ekki missa,“ sagði Björn.

 

Til að mæta minnkandi fjárframlagi frá ríkinu segir Björn að grípa þurfi til nokkurra aðgerða. „Í fyrsta lagi er stefnt að því að verja kennslu og rannsóknir við skólann. Í öðru lagi fórnum við þremur verkefnum sem ekki falla beint undir kjarnastarfsemi skólans þar sem tekjur af þeim nægja ekki til reksturs þeirra. Þriðja forsenda er að endurskipuleggja mönnun stoðsviða og uppbyggingu þeirra. Í fjórða lagi eru breytingarnar hugsaðar þannig að sókn til uppbygginga skólans verði sem auðveldust eftir að við erum komnir í gegnum núverandi þrengingar,“ sagði Björn Þorsteinsson í samtali við bbl.is. Loks má geta þess að minni aðsókn var að háskólanámi við LbhÍ í haust í samanburði við síðustu ár. Hins vegar er aðsókn meiri á starfsmenntabrautir við skólann. Settur rektor útilokar ekki í samtali við bbl.is að neikvæð umræða um erfiða stöðu skólans og óvissa um framtíð hans, dragi úr aðsókn.

 

 

Hér má sjá viðtalið við Björn Þorsteinsson í heild sinni á bbl.is

 

 

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is