Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. september. 2014 06:01

Kerfið tryggir ekki að dýralæknir sé á vakt á dagvinnutíma

Óánægju hefur gætt í hópi bænda með fyrirkomulag dýralæknaþjónustu í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu undanfarin misseri. Þrátt fyrir það virðist sem hún hafi fram til þessa ekki náð inn á borð þess yfirvalds sem hefur með heilbrigði og velferð dýra í landinu að gera. Um málaflokkinn sjá Matvælastofnun og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Einkum er það samráðsleysið sem virðist gæta meðal starfandi dýralækna á svæðinu sem gagnrýnd er. Kerfisbreyting sem gerð var 1. nóvember 2011 á umdæmum héraðsdýralækna og dýralæknaþjónustu í landinu gerir ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi dýralæknar þjóni á dagvinnutíma á því svæði sem flokkað var í reglugerðinni sem þéttbýlt. Ekki er greitt fyrir dagvinnuvaktir af ríkinu og því ekki tryggt að læknir sé á vakt á þeim tíma sólarhrings. Því hefur það ítrekað gerst að bændur hafa gripið í tómt, ekki náð í dýralækni, þegar bráðatilvik koma upp á búum þeirra. Svæðið sem flokkað er sem þéttbýlt er allt frá Snæfellsnesi suður um og austur að Kirkjubæjarklaustri. Í vaktakerfi utan dagvinnu tekur ríkið hins vegar þátt í kostnaði hringinn í kringum landið og kostar einnig dagvaktir á hinum hluta landsins sem flokkaður er sem dreifbýli. Þetta fyrirkomulag um að sjálfstætt starfandi dýralæknar sinni dagvöktunum og beri þannig alfarið ábyrgð á þjónustu á þeim tíma þykir ekki hafa gefið góð raun í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu.

Náði ekki í lækni í hálfan sólarhring

Kristbjörn Jónsson bóndi á Bóndhóli í Borgarhreppi sagði frá því í viðtali í Skessuhorni nýverið að hann hafi ekki náð í dýralækni í sumar, þrátt fyrir að fjórir dýralæknar væru starfandi á svæðinu. Reyndar sinnir einn þeirra verslunarstöfum sem aðalatvinnu. Kristbjörn á Bóndhóli varð fyrir því í sumar að missa af þessum sökum fyrsta kálfs kvígu þar sem hann náði ekki í dýralækni fyrr en eftir hálfan sólarhring. Þeir reyndust allir í sumarfríi og stóð enginn þeirra dagvakt. Kristbjörn segir að dýralæknamálin á svæðinu séu í ólestri, bændur og búsmali búi þar við mikið óöryggi. Samráð og samstarf milli starfandi dýralækna á svæðinu sé greinilega lítið sem ekkert og núverandi kerfi gjörsamlega óviðunandi. „Það er ekki búandi við þetta óöryggi,“ segir Kristbjörn.

 

Ekki talin þörf á endurskoðun

Reglugerðin um dýralæknaþjónustuna og breytt kerfi sem tók gildi 1. nóvember 2011 fól í sér að endurskoða skyldi reglugerðina og þar með kerfið innan þriggja ára. Ólafur Friðriksson skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að ekki hafi þótt ástæða til að endurskoða reglugerðina og þar með kerfið. Það þyki hafa gengið ágætlega eftir í meginatriðum og sama fjárveiting er til málaflokksins og áður. Auglýst hafi verið eftir dýralæknum til að vinna áframhaldandi eftir þeim þjónustusamningum sem gerðir voru, svo sem um dagvaktaþjónustu á dreifbýlli svæðum landsins; á Snæfellsnesi, í Dölum og vestur um á Strandir og Vestfirði. Matvælastofnun vinni að ráðningu dýralækna til að sinna þjónustusamningum þessa dagana. Vaktakerfi er skipulagt af starfandi héraðsdýralækni eða starfsmanni Matvælastofnunar.

Ljóst er að ekki var leitað eftir umsögn um reynslu af breyttu kerfi í dýralæknaþjónustu svo sem hjá samtökum bænda í landinu. Guðmundur Sigurðsson framkvæmdastjóri Búnaðarsamtaka Vesturlands sagði í samtali við Skessuhorn að ekki hafi verið óskað eftir umsögn samtakanna um breytingar á fyrirkomulagi dýralækna. Ekki hafi heldur borist kvartanir eða formlegt erindi inn á borð starfsmanna Búnaðarsamtakanna vegna dýralæknaþjónustunnar og þau mál ekki verið til umfjöllunar starfsmanna BV frá því kerfisbreytingin var gerð fyrir tæpum þremur árum.

 

 

Í síðasta Skessuhorni er nánar greint frá þessu máli.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is