Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
16. september. 2014 06:01

Hreyfiseðill í stað lyfseðils - innleiðing kerfisins hafin á Vesturlandi

Svokallaðir hreyfiseðlar eru að ryðja sér til rúms hér á landi. Hreyfiseðill er ávísun á hreyfingu og virkar í raun eins og lyfseðill að því leytinu til að læknar ávísa þeim en í stað þess að fara í apótekið eftir læknisheimsóknina er pantaður tími hjá hreyfistjóra. Að sögn Jóns Steinars Jónssonar læknis, sem sæti á í verkefnisstjórn heilbrigðisráðherra um hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu, hentar hreyfiseðillinn vel fyrir þá skjólstæðinga sem eru með sjúkdóma þar sem hreyfing er gagnlegur hluti af meðferð eða jafnvel eina meðferðin. „Þarna er verið að færa heilbrigðiskerfinu ákveðið verkfæri sem hefur verið í þróun í átta ár. Vitneskjan um gagnsemi hreyfingar, sem meðferð við ýmsum sjúkdómum, hefur leitt til þróunar í ýmsum löndum á hreyfingu sem meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Hér á landi var fyrsti vísirinn að þessu árið 2006 á Heilsugæslunni í Garðabæ. Á árunum 2010-2012 var rekið tilraunaverkefni með hreyfiseðilinn á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og það verkefni var svo útvíkkað á síðasta ári þegar öll heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri fékk aðgang að þessu meðferðarúrræði,“ segir Jón Steinar. Hreyfiseðill - ávísun á hreyfingu, er nú kominn í fjárlög og unnið er að innleiðingu hans á allri landsbyggðinni.

Bara einn smellur

Í dag eru til rannsóknir á áhrifum hreyfingar sem meðferð við mörgum sjúkdómum. Algengustu ástæður hreyfiseðils hérlendis hingað til eru fullorðinssykursýki, offita, hár blóðþrýstingur, þunglyndi og kvíði ásamt ýmsum stoðkerfissjúkdómum enda getur hreyfing verið gagnleg sem meðferð við öllum af framangreindum kvillum. „Seðillinn virkar þannig að læknar og/eða hjúkrunarfræðingar hitta sjúklinga í viðtölum og reyna að vekja áhugahvöt hjá þeim til að byrja að hreyfa sig og gera þeim grein fyrir gagnsemi hreyfingar sem hluta af meðferðinni. Ef sjúklingurinn hefur áhuga, þá fer hann í eitt viðtal til hreyfistjóra,“ segir Jón Steinar. Hreyfistjórarnir eru sjúkraþjálfarar sem hafa fengið þjálfun í áhugahvetjandi samtali. Viðtalið er klukkustundar langt og þar er ástand sjúklingsins metið og hann látinn gangast undir einfalt göngupróf til að fá hugmynd um hvar hann er staddur. Einnig eru lagðar fyrir hann virknispurningar. Í framhaldi af því er lögð upp áætlun í samráði við sjúklinginn um hreyfingu. „Það er ekki tilviljanakennt hvernig meðferðin er sett upp og ekki er sama meðferð notuð fyrir alla, heldur fær hver og einn sjúklingur meðferð sem er sérsniðin að hans þörfum, getu og sjúkdómsgreiningu,“ útskýrir Jón Steinar. Eftir að sjúklingur hefur hreyft sig fer hann á heimasíðuna hreyfiseðill.is og merkir við á ákveðinn hátt sem gerir honum kleift að fylgjast með frammistöðu sinni á myndrænan hátt og gerir hreyfistjóranum einnig kleift að fylgjast með. „Ef engin tölvukunnátta er til staðar, má auðveldlega fara framhjá því. Flestir nota þó vefinn enda þarf ekki að gera annað en að fara inn á heimasíðuna og smella einu sinni á einn hnapp, flóknara er það ekki. Þó geta sjúklingar notað síma ef þeir kjósa það frekar en þá missa þeir sjónrænu hvatninguna sem felst í því að gera þetta á vefnum,“ segir Jón Steinar. Nái sjúklingurinn ekki markmiðum sínum hefur hreyfistjórinn samband við hann, hvetur hann áfram og leitar nýrra leiða ef þörf krefur. „Ef hreyfingin fer niður fyrir 70% þá hefur forritið samband við hreyfistjórann sem getur þá haft samband við sjúklinginn. Hreyfistjórinn fylgist þó vel með og hefur einnig samband til að gefa jákvæða endurgjöf og hvatningu.“ Að sögn Jóns Steinars gildir seðillinn í eitt ár en flestir útskrifast eftir fjóra til fimm mánuði ef vel gengur. Sjúklingurinn er að auki áfram í eftirliti hjá sínum lækni á meðan og eftir að meðferðinni lýkur.

 

20% starfshlutfall á Vesturlandi

Líkt og fyrr segir er hreyfiseðillinn nú inni í fjárlögum og gerð hefur verið þriggja ára áætlun um innleiðingu hans. „Áætlunin gerir ráð fyrir lágmarksmönnun hreyfistjóra. Eftirspurnin er lítil í byrjun og við byrjum smátt, ekki nema með 3,5 stöðugildi hreyfistjóra á öllu landinu. Það er ein staða á hverja hundrað þúsund íbúa, sem er svo dreift á stofnanir landsins. Við vonumst svo til að geta ráðið fleiri hreyfistjóra í framtíðinni en það þarf ekki stórt hlutfall til að byrja með,“ útskýrir Jón Steinar. Hér á Vesturlandi er Ingibjörg Óskarsdóttir hreyfistjóri en hún starfar sem sjúkraþjálfari á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. „Væntanlega verður annar hreyfistjóri skipaður í Stykkishólmi von bráðar. Þeir munu þá skipta með sér stöðugildinu, sem er 20% fyrir Vesturland,“ bætir Jón Steinar við. Hann segir meginmarkhóp hreyfiseðilsins vera sá hópur fólks sem hreyfir sig ekki neitt. „Við viljum helst ná þeim inn, því þar er heilsufarslegur ávinningur mestur. Þetta er í mörgum tilfellum fólk með króníska sjúkdóma sem hitta lækna oft og hreyfingin bætir heilsu þeirra og lífslíkur.“

 

Sveitarfélögin geta lagt sitt af mörkum

Jón Steinar segir að í einhverjum tilfellum vanti úrræði fyrir þann hóp sem mest þarf á hreyfingunni að halda. „Langflestir sem tilheyra þessum hópi passa ekki inn í hefðbundna hlaupahópa eða slíkt og því er lítið af úrræðum fyrir þá. Það eru ekki til margir gönguhópar fyrir þá sem hafa stundað litla hreyfingu og eru að stíga sín allra fyrstu skref í hreyfingu í langan tíma. Það vantar því úrræði þar sem álagið er lítið, því þar byrjum við.“ Sveitarfélög landsins geta þó lagt mikið af mörkum. Þau geta séð til þess að það séu til staðar göngustígar, hjólastígar eða aðstaða til að stunda einfalda hreyfingu. Það er einnig hægt að gera með því að tryggja að göngustígar séu lýstir, hugað sé að hálkuvörnum og fleiru sem snertir samfélagið. „Sveitarstjórnir á landinu eru því mikilvægir aðilar sem þurfa að átta sig á að búa til aðstæður sem henta til einfaldrar hreyfingar,“ segir hann.

 

Kerfið hér í fararbroddi

Að sögn Jóns Steinars er mikilvægt að átta sig á hvað hreyfingarleysi er óhollt og mikill áhættuþáttur. Hann segir það því mikilvægt að koma hreyfingiseðli inn í heilbrigðiskerfið, að færa kerfinu þetta verkfæri sem hreyfiseðillinn er. „Sambærilegt kerfi er í raun til á öllum Norðurlöndunum og eru Svíar leiðandi í slíkri meðferð. En við lítum svo á að kerfið hér sé jafnvel betra en annars staðar. Við höfum þróað þetta tölvuforrit og erum í vissum skilningi í fararbroddi í þessari meðferð. Það hefur verið sýnt fram á að hreyfing er áhrifarík og virk meðferð og nú er búið að koma henni inn í heilbrigðiskerfið.“

Jón Steinar tekur það fram að það taki þó tíma fyrir slíkar nýjungar að festa sig í sessi en meðferðarheldnin sé góð, því 60 - 70% þeirra sem fá ávísun á hreyfiseðil fylgja áætluninni eftir. „Innleiðing meðferðarinnar er ódýr, með fáar aukaverkanir og geta skjólstæðingar nú lagt sjálfir mikilvægt lóð á vogarskálina til að bæta heilsu sína og meðhöndla þá sjúkdóma sem þeir glíma við. Til þess að hreyfiseðillinn nái fótfestu er mikilvægt að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk og þeirra skjólstæðingar nýti úrræðið vel,“ segir Jón Steinar Jónsson að endingu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is