Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. september. 2014 09:01

Tekur veðrið á elstu veðurathugunarstöð landsins

Í Stykkishólmi er elsta veðurstöð landsins, hefur verið starfrækt óslitið frá 1845 þegar Árni Thorlacius kaupmaður hóf þar veðurathuganir. Árni var mikill áhugamaður um veður og skrifaði m.a. kennslubók fyrir sjómenn sem hann hugði til leiðbeiningar fyrir þá til að varast aftakaveður. Sú kennslubók kom reyndar aldrei út en er engu að síður talin hafa verið hvatinn að því að Árni hóf reglubundnar veðurathuganir. Veðurathugunarmenn hafa verið nokkrir í Hólminum um tíðina þótt margir hafi enst lengi í því starfi. Síðustu sjö árin hefur gegnt starfinu kona af pólsku bergi brotin, Wioletta Maszota eiginkona Þrastar Auðunssonar sjómanns. Hún var einmitt að gá á mælana og taka veðrið við heimili sitt á Lágholti 1 í Stykkishólmi þegar blaðamaður Skessuhorns var staddur í Stykkishólmi nýverið.

 

 

 

Yfirleitt besta veðrið í Hólminum

Wioletta segir að yfirleitt sé besta veðrið í Stykkishólmi. Hún hafi séð það vel á dögunum þegar hún komst aðeins frá og skrapp til Reykjavíkur og einnig fór hún um það leyti í aðra ferð til tannlæknis í Ólafsvík. „Það var gott veður hérna í bæði skiptin, en fór svo að þykkna upp og rigna þegar ég kom bæði til borgarinnar og Ólafsvíkur. Reyndar hefur verið ansi lítil sól hérna í sumar,“ segir Wioletta. Hún segir að í næsta mánuði verði 19 ár liðin frá því hún kom til landsins og lengst af hefur hún búið í Stykkishólmi. „Stykkishólmur er minn staður. Ég vildi ekki búa annars staðar,“ segir Wioletta.

 

Skemmtilegt en mjög bindandi

Þegar Wioletta er spurð hvernig það hafi orsakast að hún tók við starfi veðurathugunarmanns í Stykkishólmi, segist hún hafa séð starfið auglýst. „Þetta er ofsalega góð og skemmtileg vinna en reyndar mjög bindandi. Þetta hentar mér ágætlega, ekki síst var það þannig þegar ég byrjaði fyrir sjö árum, því þá var ég hvort eð er bundin heima yfir börnunum. Þröstur maðurinn minn hefur komið á móti mér í þessu þegar hann hefur verið heima í fríum en ég sá hann nú lítið í sumar þegar hann var á sínum báti á makrílnum,“ segir Wioletta. Veðurathugunum er sinnt átta sinnum á sólarhring, á þriggja tíma fresti. „Þetta er ansi töff hjá mér á skólatímanum hjá krökkunum, þegar ég tek veðrið um miðnættið og síðan klukkan þrjú um nóttina og sex um morguninn. Síðan þarf ég að vakna með krökkunum í skólann klukkan hálf átta.“

 

Oft litabrigði í skýjunum

Veðurathugunarmaðurinn þarf auk þess að lesa á mæla með úrkomu og vindstyrk og meta skýjafar og skyggni. Wioletta segir að það sé ekki stórmál að meta hvort skýjað er eða hálfskýjað. Verra væri að meta skyggnið svo sem lengd þess í hundruðum metra eins og oft heyrist í veðurskeytum. „Það er sérstaklega á nóttunni sem það getur reynst erfitt. Maður reynir að miða skyggni við fjöllin hérna í nágrenninu en í hríðarkófi yfir veturinn er ekki gott að gefa upp tölur um það,“ segir Wioletta. Hún segist stundum gefa sér góðan tíma til að taka veðrið þegar himinn sé fallegur og litabrigði í skýjunum. Tunglið geti líka verið mjög fallegt ekki síst þegar svokallaður halohringur er kringum tunglið, einskonar geislabaugur. „Svo eru norðurljósin líka oft gríðarlega falleg, þannig að oft er ég ekkert að flýta mér inn ef nógur tími er til að senda upplýsingarnar til Veðurstofunnar,“ segir Wioletta.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is