Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. september. 2014 10:01

Vertíðin stóðst væntingar og gott betur

Þó nokkrir Akranesbátar stunduðu markílveiðarnar í sumar. Þeim var þó lítið róið frá Akranesi þar sem lítið sást til makríls þar um kring. „Ég stundaði veiðar mest við Snæfellsnesið og hér í Faxaflóa. Ég fór ekki í neitt flakk til þess að gera en reyndi aðeins fyrir mér hér heima við Akranes. Hérna var ekkert að hafa nema rétt vikuna fyrir og um verslunarmannahelgi. Þá sást vaðandi makríll hér í grenndinni. Bátar komust í afla en það var allt og sumt,” segir Böðvar Ingvason. Hann er útgerðarmaður og skipstóri á Emilíu AK 57.

 

 

 

Frábær þjónusta í Snæfellsbæ

Þetta var annað sumarið í röð þar sem Böðvar hélt báti sínum til makrílveiða yfir sumartímann. Nú í ár réri Jón Mýrdal sonur hans með honum á bátnum þar til skólinn kallaði í lok ágúst. „Aflinn á vertíðinni varð nokkuð umfram væntingar. Ég vonaðist til að veiða 50 tonn í sumar en fékk á endanum 79 tonn í heildina. Ég þurfti að veiða 50 tonn til að hafa fyrir útlögðum kostnaði við veiðarnar. Fyrir vertíðina lagði ég í endurbætur á veiðibúnaðinum með kaupum á nýjum tölvurúllum, fiskleitartækjum og endurbættum slíturum,” segir Böðvar.  

„Veiðin var best í restina af vertíðinni. Við lönduðum í Ólafsvík, Rifi og Arnarstapa. Þjónustan á fiskmörkuðunum þarna er alveg frábær. Öll vinna gekk mjög hratt fyrir sig. Allt var til fyrirmyndar,” bætir hann við.

 

Hefði átt að fara eftir veiðireglum

Eins og fleiri þá er Böðvar ósáttur við að makrílveiðarnar skuli hafa verið stöðvaðar þegar bátarnir lágu í mokveiði á úrvals makríl rétt utan við hafnirnar á norðanverðu Snæfellsnesi. „Makrílveiðar smábáta eiga bara að vera frjálsar. Fyrst svo var ekki þá átti að fara eftir upphaflegum reglum þar sem ákveðinn kvótapottur var gefinn út á allan smábátaflotann fyrir hvern mánuð; júlí, ágúst og september. Þessu var ekki framfylgt heldur bara veitt þar til heildarkvótinn fyrir sumarið kláraðist snemma í september. Við sem stunduðum veiðarnar vorum allir orðnir dauðþreyttir af vinnu því að veiðarnar voru stundaðar nánast í einum spreng alveg frá byrjun. Ég held að allir hefðu verið sáttir ef það hefði verið stoppað til að mynda þarna í ágústmánuði þegar potturinn fyrir þann mánuð var búinn og þannig fengið hvíld í nokkra daga í lok mánaðarins. Svo hefðu menn þá bara byrjað aftur ferskir í september og kvótinn fyrir þann mánuð dugað flotanum betur en raun varð á.”

 

Vertíðin reyndi á

Böðvar nefndi að makrílveiðiskapurinn hefði reynt bæði á menn og búnað, ekki síst í aflahrotunni miklu við Snæfellsnes í lok ágúst og byrjun septembermánaðar.

„Menn verða langþreyttir á því að stunda þennan veiðiskap. Ég var einn á bátnum í restina eftir að Jón var farinn í skólann. Þegar maður er einn þá er þetta vinna alveg frá fimm á morgnana til miðnættis. Það var farið út svona snemma og fiskmarkaðarnir loka klukkan tíu á kvöldin. Svo bættist við löndunarbið. Menn búa í bátunum. Allt reynir þetta á til lengdar. Undirbúningurinn fyrir vertíðina tók um mánuð og svo tóku veiðarnar við. Það þarf mikla þolinmæði við þessar veiðar. Makríllinn er uppsjávarfiskur. Það er mikið flökt á honum og maður gengur ekkert að honum vísum. Sumarið fer bara í þetta.,” segir Böðvar. 

 

Óvissa um næsta framhald veiða

Það er alls óráðið eins og er hvað tekur við hjá honum í veiðunum og útgerðinni nú þegar makrívertíðin er á enda. Emilía er með 35 tonna kvóta í bolfiski. Sá afli hefur verið tekinn á línu yfir haust- og vetrarmánuðina. Böðvar er einn þeirra sem sjá nú að lítill ýsukvóti setur þeim stólinn fyrir dyrnar.

„Ég get ekki farið á línu strax. Það er svo mikið af ýsu hérna í Faxaflóa og kvótinn á henni er svo lítill.  Það er ekki vinnandi vegur að fara að skipta aflaheimildunum í þorski fyrir meiri ýsukvóta. Þá þarf maður að láta frá sér þrjú kíló af þorski og fá tvö ýsukíló í staðinn. Það er mjög óhagkvæmt því aflaverðmætið er það sama þó kvótaverðið sé það ekki,” segir Böðvar Ingvason á Emilíu AK.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is