Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. september. 2014 03:08

Litlir rekstrarlegir kostir taldir við sameiningu sveitarfélaga á Vesturlandi

Hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi er komin út skýrsla með helstu niðurstöðum sem byggja á könnun á viðhorfi sveitarstjórnarfólks á Vesturlandi til ýmissa þátta er viðkemur rekstri, samstarfi og hugsanlegri sameiningu sveitarfélaga í landshlutanum. Höfundar skýrslunnar eru dr. Vífill Karlsson og Torfi Jóhannesson. Samkvæmt niðurstöðum þeirra yrði mestur ávinningur smærri sameininga sveitarfélaga á Vesturlandi við sameiningu Dalabyggðar, Reykhólasveitar og Strandabyggðar. Því næst kæmi sameining Snæfellsness í eitt sveitarfélag. Sveitarfélagið Akraborg sem talað hefur verið um að næði til sameiningar sveitarfélaganna sunnar Skarðsheiðar er ekki góður kostur. Enn síður verði ábati af sameiningu Borgarbyggðar, Skorradalshrepps og Eyja- og Miklaholtshrepps og sístur ef nokkur af sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólms.

Skýrslan var kynnt á haustfundi SSV í Búðardal sl. fimmtudag. Skýrsluhöfundar treysta sér ekki til að mæla með sameiningu sveitarfélaga í landshlutanum. Í henni segir m.a varðandi sameiningar smærri sveitarfélaga að íbúaþróun smæstu sveitarfélaga á Vesturlandi, einkum þeirra sem ekki státa af þéttbýlismyndun, komi til með að þrýsta á sameiningu þeirra við önnur í náinni framtíð.

Fjögur ár eru liðin frá því SSV lét gera skýrslu um sameiningu sveitarfélaga á Vesturlandi og þá einkum um kosti þess að sameina Vesturland í eitt stórt sveitarfélag. Skýrsluhöfundar voru þá þeir sömu að viðbættum Elíasi Árna Jónssyni. Sú skýrsla sýndi að þegar er mikið samstarf milli sveitarfélaganna á Snæfellsnesi annars vegar og í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu hins vegar. Dalabyggð hefur ákveðið samstarf við Borgarbyggð en stendur að mestu leyti sjálfstætt. Í framhaldi af þessari skýrslu vaknaði áhugi á að skoða nánar möguleika á umfangsminni sameiningum sveitarfélaga á Vesturlandi. Geta má þess í framhjáhlaupi að þegar liggur fyrir að fulltrúar Dalabyggðar og nágrannasveitarfélaga í norður, Reykhólahreppur og Strandabyggð, komi saman innan skamms til að ræða mögulega sameiningu. Það er gert á grundvelli vilja íbúanna sem kannaður var samhliða sveitarstjórnarkosningum síðasta vor.

 

Samvinna bæti gæði þjónustu

Niðurstaða nýútkominnar skýrslu um viðhorf sveitarstjórnarfólks til sameiningar smærri sveitarfélaga á Vesturlandi leiddi m.a. í ljós að sameiningar dragi úr samheldni samfélaganna og kjörsókn myndi minnka. Búast megi við að hreinn ábati sameininga yrði einhver. Mikill vilji er til staðar fyrir auknu samstarfi sveitarfélaga á Vesturlandi. Rekstrarlegur ávinningur af samstarfi í stað sameininga yrði kannski ekki eins mikill og við sameiningar, en hann myndi ekki bitna á kjörsókn, aðgengi að þjónustu og samheldni. Samstarf gæti líka aukið gæði þjónustu og gert það mögulegt að sveitarfélög réðu við fleiri opinber verkefni sem ríkið hefur rekið fram til þessa líkt og gerist við sameiningar. Það virðist því vera annar valkostur að horfa frekara til samstarfs sveitarfélaga á Vesturlandi.

Í niðurstöðunum segir einnig að vafi leiki á því hver rekstrarlegur ávinningur sveitarfélaga yrði af sameiningu þeirra. Fyrri rannsóknir á Íslandi og erlendis gefi ekki einhlítar niðurstöður um að sameiningar leiði til bættrar afkomu. Einhver möguleiki sé á að gæði þjónustu sveitarfélaga batni við sameiningar en aðgengi versni fyrir þá íbúa sem ekki búa nærri miðju þess. Staða lýðræðis myndi versna við sameiningar. Þá er útlit fyrir að kjörsókn drægist saman við sameiningar. Þetta styðji erlendar sem innlendar rannsóknir sem og sú rannsókn sem ráðist var í við vinnslu skýrslunnar.

Skýrsluna í heild má finna á vef Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi; www.ssv.is

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is