22. september. 2014 08:37
Á aðalfundi Stranda – félagi smábátaeigenda í Strandasýslu, sem nýverið fór fram var samþykkt ályktun vegna skertra ýsuveiðiheimilda þar sem skorað er á þingmenn Norðvesturkjördæmis að taka málið upp. „Aðalfundur Stranda lýsir yfir miklum áhyggjum vegna 20% niðurskurðar á veiðiheimildum í ýsu. Með ákvörðuninni er komið í veg fyrir línuveiðar frá Hólmavík og Drangsnesi vegna mikillar ýsugengdar í Húnaflóa. Við blasir atvinnuleysi tuga starfsmanna á sjó og landi, sjómanna, landverkafólks og þjónustuaðila. Aðalfundur Stranda skorar á þingmenn kjördæmisins að bregðast strax við. Strandir benda á eftirtaldar leiðir: Að breyta nú þegar lögum um stjórn fiskveiða þannig að allar takmarkanir á framsali á ýsu verði afnumdar, að auka línuívilnun í ýsu, að ýsuafli línubáta framtil áramóta verði reiknaður sem þorskígildi og að taka upp ívilnun á ýsu sem veidd er á grunnslóð þannig að þriðjungur þess sem veiðist þar verði utan kvóta.“