22. september. 2014 11:01
Síðasta umferð 1. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu fór fram sl. laugardag. Víkingur Ólafsvík sótti Hauka heim á Ásvelli í Hafnarfirði. Leikurinn var jafn og einkenndist af mikilli baráttu. Ólafsvíkingar komust yfir í leiknum þegar Eyþór Helgi Birgisson skoraði á 26. mínútu. Haukar jöfnuðu á 39. mínútu og náðu síðan að knýja fram sigur á 83. mínútu. Við tapið féll Víkingur úr 3. sæti deildarinnar niður í það fjórða. Þróttur sem á sama tíma sigraði KV skaust upp í 3. sætið. Víkingur hlaut 36 stig, einu stigi minna en Þróttur en stigi meira en Grindavík sem varð í 5. sætinu. Keppni var jöfn í 1. deildinni í sumar og örlítið stigabil á milli liðanna frá þriðja sætinu og niður í það áttunda. Eins og fram hefur komið verða það Leiknir og ÍA sem fara upp í deild þeirra bestu næsta sumar.