24. september. 2014 03:42
Drengurinn sem brenndist þegar hann var að handleika gamalt neyðarblys sl. mánudag í grunnskóla á Akranesi er á gjörgæsludeild og verður það a.m.k. fram yfir helgi. Faðir drengsins skrifaði í morgun færslu á Faceooksíðu sína þar sem hann segir stöðuna á syni sínum alvarlega.
„Hann er búinn að liggja á gjörgæslu síðan á mánudag og kemur til með að verða þar í það minnsta fram yfir helgi. Hann á framundan langt ferli og erfitt í að ná bata, bæði á sál og líkama. Bata eins góðan og hann getur fengið. En örin verða mikil og ávallt til áminningar um atburðinn,“ skrifar faðirinn.
Faðir drengsins skrifar jafnframt að ekki sé vitað hvar drengurinn hafi komist yfir blysið, en það sem hann viti sé að það kom ekki af heimili þeirra. Einhversstaðar hafi það legið á glámbekk og það sé grafalvarlegt mál. „Því bið ég þá aðila sem eiga slíkt heima fyrir og eða vita um blys, að ganga tryggilega frá þeim, þannig að fleiri börn verði ekki fyrir skaða.“