Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. september. 2014 12:00

Vetrardagskrá Landnámsseturs Íslands hefst í kvöld

Líkt og undanfarin ár verður ýmislegt á döfinni í Landnámssetrinu í Borgarnesi í vetur. Vetrardagskrá setursins er að taka á sig mynd og nú þegar eru fjölmargir viðburðir á dagskrá; tónleikar og sagnakvöld, sem eru nokkurs konar einleikir, af ýmsum toga. Að sögn Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur og Kjartans Ragnarssonar í Landnámssetri er listinn yfir viðburði ekki tæmandi enda líklegt að fleiri uppákomur bætist við þegar líður á haustið. Vetrardagskráin hefst í kvöld, fimmtudaginn 25. september, kl. 20:30 með tónleikum Felix Bergssonar og Hlyns Ben. Báðir verða með nýútkomnar plötur í farteskinu og á tónleikunum munu þeir flytja lög af þeim, segja sögur og eiga notalega kvöldstund með áhorfendum.

 

 

 

Einleikur og tónleikar í október

Í októbermánuði munu Ómar Ragnarsson og Helgi Björnsson stíga á stokk í Landnámssetri. „Í september í fyrra byrjaði Ómar að segja áhorfendum litskrúðuga ævisögu sína. Í þeim hluta sagði hann frá uppruna sínum, fólkinu sem stóð honum að baki, áhrifavöldum í æsku og litskrúðugum persónum í fjölskyldunni og frá æskuslóðum hans í Reykjavík. Nú heldur Ómar áfram með annan kafla sögunnar,“ útskýrir Kjartan. Frumsýning verður föstudaginn 3. október næstkomandi kl. 20:00. Þar mun Ómar reka gleði og sorgir unglingsáranna, sem ekki voru síður litrík og frásagnarverð en barnæskan. Að sögn Sigríðar og Kjartans er sýning Ómars ekki hefðbundið frásagnarkvöld. „Það má frekar segja að þetta sé nokkurs konar einleikur, ekki bara sagnastund. Ómar leikur sjálfan sig og aðrar persónur í kringum hann, fólkið sem stóð honum að baki,“ segir Sigríður.

Hinn landsþekkti söngvari og leikari, Helgi Björnsson, fagnar 30 ára söngafmæli um þessar mundir. Helgi mun fagna þessum tímamótum með 30 tónleikum víðsvegar um landið undir heitinu Kvöldstund með Helga Björns, þar sem hann mun rifja upp feril sinn í tali og tónum, segja frá tilurð laganna, rifja upp rokksögur og taka fram gamlar poppflíkur og nokkur góð dansspor. Helgi verður í Landnámssetrinu sunnudaginn 12. október og hefst kvöldstundin kl. 20:30.

 

Rithöfundar stíga á stokk eftir áramótin

Eftir áramótin mun rithöfundurinn og leikkonan Steinunn Jóhannesdóttir segja frá lífi Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur með árið 1627 sem útgangspunkt. Þetta ár var mikið örlagaár í lífi Hallgríms og Guðríðar, sem og allrar þjóðarinnar. Steinunn hefur ritað tvær bækur um Hallgrím og Tyrkja - Guddu og vinnur nú að þeirri þriðju. Hún mun frumsýna uppákomu sína „1627, árið sem breytti öllu,“ 16. janúar næstkomandi kl. 20:00. Föstudaginn 6. mars 2015 mun Einar Kárason stíga á svið í Landnámssetri ásamt dóttur sinni, Júlíu Margréti og frumsýna Skálmöld kl. 20:00. „Um þessar mundir kemur út bókin Skálmöld eftir Einar. Er hún fjórða og síðasta bókin um skálmöld Sturlungaaldarinnar, þar sem sagt er frá uppgangi og falli Sturlu Sighvatssonar, föður hans og bræðra. Bókin er byggð upp á eintölum hinna ýmsu persóna sem áttu beinan þátt í þeim örlagaatburðum sem enduðu í Örlygsstaðabardaga og taka bæði konur og karlar til máls. Einar og Júlía Margrét munu flytja söguna saman í formi eintala höfuðpersónanna, þar sem hann talar fyrir karlmenn og hún fyrir kvenfólk,“ segir Kjartan. Sigríður og Kjartan segja uppákomur rithöfundanna vera lifandi frásagnir og nokkurs konar leiksýningar þar sem höfundarnir fari með handrit og engin tilviljun sé hvað þeir segja. „Við segjum stundum að þetta sé „hinn talandi höfundur“ og nefnum tenginguna við hvernig Íslendingasögurnar urðu til í gegnum munnmæli. Þetta er alls ekki svo ólíkt.“

 

Opið alla daga

Líkt og fyrr segir er listinn yfir viðburði vetrarins ekki tæmandi og búast má við að fleiri listamenn leggi leið sína í Landnámssetrið í vetur. „Það geta alltaf bæst við fleiri tónleikar. Það má til dæmis nefna að söngkonan Kristjana Arngríms er með skemmtileg dagskrá sem hún nefnir Gestaboð og verður sýnd í Rósenberg í Reykjavík. Þar er hún gestgjafi og tekur á móti gestum sem koma og syngja. Það er líklegt að hún verði með einhverja útfærslu af Gestaboðinu í Landnámssetri í vetur. Hún gefur einnig út nýja jólaplötu í haust og verður með jólatónleika í Landnámssetrinu þann 13. desember, kl. 15:30. Þá er líklegt að Sigríður Thorlacius komi til okkar í nóvember og KK og Ellen verði með sína árlegu jólatónleika í desember,“ segir Kjartan. Sigríður bætir því við að þá séu sýningarnar um landnámið og Egilssögu opnar alla daga í Landnámssetrinu. „Íslendingar hafa látið vel af þeim sýningum. Við höfum fengið marga gesti, til dæmis úr sumarbústöðum í nágrenninu sem hafa haft gaman af þeim. Þær hæfa öllum aldri og eru skemmtilegar fyrir börn.“

Hádegishlaðborð Landnámssetursins verður einnig opið í allan vetur. Þar er boðið upp á hollan og fjölbreyttan mat í hádeginu, meðal annars súpur og salöt. „Við höfum einnig boðið upp á þá nýjung að fastagestir geta nú fengið klippikort, þannig að þeir fá afslátt af hádegishlaðborðinu sívinsæla. Svo er orðið töluvert um að fólk komi hingað til að fá sér kaffisopa, enda er hægt að setjast hér niður og fara á netið, læra eða bara að taka því rólega og njóta umhverfisins. Nýi salurinn er vinsæll, enda er hann flottur og skemmtilegur. Þar hefur fólk þá tilfinningu að það sé úti þrátt fyrir að vera inni,“ segir Sigríður Margrét að lokum.

 

Það er því spennandi vetrardagskrá í vændum á Landnámssetrinu. Nánari upplýsingar má svo finna á vefsíðu Landnámssetursins, www.landnam.is  og í síma 437-1600.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is