29. september. 2014 08:01
Verkefnið Hjólum í skólann, þar sem nemendur og starfsfólk framhaldsskóla landsins kepptust um að nýta sem oftast virkan ferðamáta til og frá skóla, stóð frá 12. - 16. september. Um er að ræða samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Hjólafærni á Íslandi, Embættis landlæknis, Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Í tilkynningu frá ÍSÍ kemur fram að alls tóku nítján framhaldsskólar þátt og fjölgaði því um tvo skóla frá því í fyrra. Þátttakendur voru 1.236 og hjólaðir voru 12.528 km. Ferðamáti þátttakenda skiptist svona: Hjólað 65,6%, strætó/ganga 19,4%, ganga 11,9%, strætó/hjólað 2,0%, hlaup 1%, annað 0,2% og línuskautar 0%. Keppt var í þremur stærðarflokkum. Alls voru fimm skólar skráðir til leiks í flokki skóla með 400 - 999 nemendur og starfsmenn og hafnaði Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi í öðru sæti í þeim flokki. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ sigraði í þeim flokki en Fjölbrautaskólinn í Garðabæ lenti í þriðja sæti.