12. janúar. 2005 01:03
Nú í upphafi vorannar skólanna eru hvorki fleiri né færri en 50 nemendur í fjarnámi á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Um er að ræða fjarnám frá Háskólunum á Akureyri og Háskóla Íslands og fer kennslan fram á fjórum stöðum um svokallaðan fjarfundabúnað. Í Búðardal eru 8 nemendur á fyrsta ári í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Í raun má segja að það sé frábær árangur í ljósi stærðar byggðarlagsins. Í Stykkishólmi eru 9 fjarnemendur á öðru ári einnig í viðskiptafræði. Í Borgarnesi eru 5 nemendur í íslenskunámi frá Háskóla Íslands. Á Akranesi eru 14 nemendur á öðru ári í hjúkrunarfræði og einn í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri. Þar er auk þess einn nemandi í auðlindadeild sama skóla og annar í íslenskunámi frá HÍ. Ellefu nemendur eru á þriðja námsári af fjórum í leikskólafræði, en það nám er kennt í fjarkennslu ýmist á Akranesi eða í Borgarnesi.