30. september. 2014 10:30
Körfuknattleiksfélag ÍA hefur fengið nýjan bandarískan leikmann í stað Robert Jarvis sem ekki fékk atvinnuleyfi hér á landi þegar til kom. Nýi Kaninn í herbúðum Skagamanna leikur einnig í stöðu leikstjórnanda og skyttu í liðinu. Hann heitir Lemuel Doe og lék æfingaleik með ÍA gegn Breiðabliki í síðustu viku. ÍA sigraði 88:80 í leiknum og skoraði Doe 29 stig, átti fimm stoðsendingar og tók jafnmörg fráköst. Eftir frammistöðuna í leiknum var ákveðið að semja við Doe, sem kom á eigin vegum til landsins í þetta skiptið, fór síðan til baka og mun svo koma aftur til Akraness á næstu dögum. Vonast er til að hann verði kominn með leikheimild fyrir fyrsta leik ÍA í 1. deildinni föstudaginn 10. október nk. gegn Breiðabliki í Kópavogi. Hannibal Hauksson formaður körfuknattleiksdeildar ÍA segir að Doe sé kraftmikill leikmaður og skotnýting hans hafi verið góð í leiknum á móti Breiðabliki. Ástæðan fyrir því að Robert Jarvis, sem áður lék með ÍR hér á landi, fékk ekki atvinnuleyfi, var að hann reyndist ekki með hreint sakavottorð.