Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
02. október. 2014 10:27

Landbúnaðarsafn opnað í Halldórsfjósi í dag

Ákveðið var fyrir nokkrum árum að færa Halldórsfjósi á Hvanneyri nýtt hlutverk. Hið myndarlega fjós sem byggt var árið 1928 yfir 70 kýr á básum á skólastaðnum Hvanneyri skyldi verða framtíðar húsnæði Landbúnaðarsafns Íslands. Gríðarmikið verk hefur verið unnið síðan þessi ákvörðun var tekin en nú er komið að stærsta áfanganum. Bjarni Guðmundsson forstöðumaður safnsins, Jóhannes Ellertsson þúsundþjalasmiður og fjölmargir aðrir hafa lagt gjörva hönd á plóg en hönnuður sýningarinnar á nýjum stað er Björn G Björnsson. Í dag, fimmtudaginn 2. október klukkan 16, verður safnið formlega opnað á hinum nýja stað eftir flutning þess vestur yfir húsasundið úr Gamla bútæknihúsinu. Á sama tíma eignast sambýlingar safnsins frá fyrstu tíð, handverksfólkið í Ullarselinu, jafnframt nýjan samastað í anddyri Landbúnaðarsafns. Í stað mjaltabáss verða nú ullarklæði af ýmsum gerðum og stærðum til sýnis og sölu.

Ekki verður mikið um lúðrablástur og háreysti í tilefni opnunar að þessu sinni, að sögn Bjarna Guðmundssonar, en hann vonast engu að síður til að ráðherra einn eða fleiri heiðri safnverja með komu sinni sem og aðrir aufúsugestir. Ef ekki forsætisráðherra þá altént ráðherra menntamála, og kannski fleiri. Í boði verður kaffitár og kleinur fyrir velunnara safnsins og gesti í boði Kvenfélagsins 19. júní.

 

Fulltrúi Skessuhorns fékk að taka forskot á sæluna undir vikulokin og knúði dyra hjá Bjarna og Jóhannesi. Ýmsir iðnaðarmenn voru auk þeirra að leggja lokahönd á verkefni fyrir opnunina. Verið var að bæta lýsingu, smíða lítilræði og koma fyrir safnmunum. Ullarselsfólk var að vinna við innréttingar og í loftinu lá tilhlökkun. Séð var fyrir endann á endurbótum á fjósinu og haughúsinu undir og flutningum þar sem ráðdeild með fé var nauðsyn þar sem fjármunir hafa verið fremur litlir, en verkið stórt. Meðal starfsmanna mátti auk þess sjá nýtt par, óvenjulega kyrrláta starfsmenn, sem bæst höfðu í hópinn. Komu reyndar hálfnakin og fremur illa til reika; hann að norðan, hún að sunnan. Hér voru geðþekkar brúður á ferð sem standa munu vörð í framtíðinni á sínum stöðum, klæddar í fatnað þess tíma sem þau eiga að endurspegla, vinnandi verk sem sum hver eru aflögð í dag en lögðu grunn að velsæld þjóðar. Vissulega líktust þessir nýju starfsmenn nafngreindum Borgfirðingum, en gestir Landbúnaðarsafns verða sjálfir að dæma um hverja átt er við.

 

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá því á föstudaginn í liðinni viku. Flestum verkum var lokið og sýningin orðin afar fróðleg og segir atvinnusögu inn til lands og út til stranda. Sjón er sannarlega sögu ríkari og er ástæða til að hvetja fólk til að heimsækja safnið. Að sögn Bjarna verður opið frá klukkan eitt til fimm á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum, en ekki verður illa tekið í opnun utan þessara tíma ef beðið er um fyrir smærri og stærri hópa.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is