Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
16. október. 2014 04:01

Snæfellsnes vinsælt hjá erlendum brúðhjónum

Miklar annir eru hjá sóknarprestinum á Staðarstað á Snæfellsnesi vegna aukins ferðamannastraums til landsins. Hann er þó ekki starfandi í ferðaþjónustu, heldur leitar fjöldi para til hans til að láta gefa sig saman í Búðarkirkju, en kirkjan er sem kunnugt er vinsæll áfangastaður ferðamanna á Snæfellsnesi. „Ég vissi að þetta væri vinsæll ferðamannastaður og að eitthvað af brúðhjónum hefðu látið gefa sig þarna saman, en ég hafði ekki gert mér í hugarlund að eftirspurnin væri svona mikil,“ sagði sr. Páll Ágúst Ólafsson í samtali við Skessuhorn. Hann hefur verið starfandi sóknarprestur í Staðarstaðarprestakalli frá því 1. desember 2013. Hann segir að flest pörin sem láti gifta sig í kirkjunni komi erlendis frá en þó séu einhverjir Íslendingar í bland. „Þetta er aðallega fólk sem kemur gagngert til Íslands til að láta gifta sig á þessum stað. Það kemur í raun ekkert á óvart, kirkjan er einstök í útliti og á einstökum stað. Hún er á stað sem býður upp á allt það besta sem Ísland hefur upp á bjóða; úfið hraun, magnaðan jökul, dásamlega strandlengju og stórbrotinn fjallgarð. Það er mikil náttúrufegurð þarna í kring og staðurinn er einstakur hvað það varðar,“ segir Páll Ágúst.

Hrifinn af heitunum

Hann segir brúðarathafnir erlendu paranna vera aðeins frábrugðnar hefðbundnum íslenskum athöfnum. Athöfnin fer fram á ensku eða dönsku og stundum þarf Páll að breyta út af vananum. „Einhvern tímann var ég beðinn um að prjóna saman asískar hefðir við okkar helgisiði og brúðkaupshætti, það var mjög skemmtilegt. En oftast er það þannig að fólkið óskar eftir kristilegri athöfn í kirkjunni og svo þarf að kenna því restina. Athöfnin er formleg og heilög í eðli sínu en ég hef gaman af því þegar fólk hefur fjölbreyttar hugmyndir og hvað fólk leggur mikla hugsun í þetta.“ Brúðkaupin sem um ræðir eru yfirleitt fámenn. Brúðhjónin koma í flestum tilvikum bara tvö saman, með sínu nánasta fólki. Hann segir að mikil áhersla sé lögð á brúðkaupsheitin sem hjónaefnin gefa hvort öðru, en ekki sé eins mikil áhersla lögð á t.d. tónlistina líkt og hjá Íslendingum. „Þau eru að gera þetta fyrir hvort annað. Ég er mjög hrifinn af brúðkaupsheitunum, þar sem fólk tjáir og heitir hvort öðru trúnaði og tryggð með eigin orðum. Mér hefur fundist það vanta aðeins í okkar hefðir. Þar sem fólk lofar hvoru öðru ást, trúnaði og tryggð með eigin orðum til viðbótar við spurningarnar sem presturinn spyr, þar sem jáið fylgir í kjölfarið. Það gefur þessu aukna einlægni,“ segir Páll Ágúst. Hann bætir því við að pörin leggi mikið upp úr staðsetningunni og umhverfinu þar í kring. Yfir sumartímann sé dásamlegt útsýni á Búðum og á haustin og fram á nýja árið séu norðurljósin vinsæl. „Margir vilja ná brúðarmyndum af sér og norðurljósunum og eru oft með atvinnuljósmyndara, innlenda eða erlenda, til að ná einstökum myndum á þessum fallega stað. Það er lagt mikið upp úr upplifuninni og minningunum í kringum hana.“

 

Allir í gönguskóm, líka presturinn

Páll Ágúst segir að oft sé einhver skemmtileg saga í kringum það þegar fólk giftir sig á Snæfellsnesi, brúðhjónin kannski komið þangað áður, eða jafnvel trúlofað sig á þessum sama stað. „Einhver hafði lesið „A Journey to the Center of the Earth“ eftir Jules Verne og svo eru nokkrir sem hafa fundið staðinn á netinu í gegnum leitarvélar og séð myndir af þessum einstaka stað og sérstöku kirkju. Það er allur gangur á þessu. Það kemur fyrir að fólk vilji láta gefa sig saman úti, svo sem niðri á strönd eða á Djúpalónssandi og jafnvel við rætur jökulsins. Ein brúðhjónin gaf ég saman í Búðarhrauni. Útivist og fjallgöngur voru sérstakt áhugamál hjá þeim og því kom ekkert annað til greina en að athöfnin færi fram úti og allir áttu að vera í gönguskóm, presturinn líka. En það var nú samt meira af praktískum ástæðum því athöfnin var úti í hrauni,“ segir Páll og hlær. Veðrið virðist oftast leika við brúðhjónin, jafnvel þau sem láta gifta sig úti og þrátt fyrir slæma spá. „Ég hef stundum verið að keyra í áttina að kirkjunni í dökku veðri en af einhverjum óútskýranlegum ástæðum hefur veðrið tilhneigingu til að verða bærilegt, eða jafnvel gott, á meðan á athöfninni stendur. Þó þungt hafi verið yfir, þá hefur það oft gerst að þegar brúðhjónin hafa gengið út úr kirkjunni hafa geislar sólarinnar tekið á móti þeim þegar út er komið. Það staðfestir fyrir mér trúna á að Guð vaki yfir okkur, sé annt um okkur og vilji vera þátttakandi í lífi okkar,“ segir sr. Páll Ágúst Ólafsson að endingu.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Framleiðnisjóður Landbúnaðarins

Fram á völlinn

Grundarfjarðarbær

Fundaröð um vegamál á Vesturlandi

Grundarfjarðarbær

Bæjarstjórnarfundur

Dalabyggð

Sveitarstjórn Dalabyggðar - 181. fundur

Grundarfjarðarbær

Gjöf frá Lionsklúbbi Grundarfjarðar

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is