03. nóvember. 2014 08:01
Starfsmenn uppsjávarfrystihúss HB Granda á Vopnafirði luku undir síðustu helgi við að vinna úr síldarafla Faxa RE. Þar með lauk stuttri en snarpri vertíð en veiðar á íslenskri sumargotssíld hófust í byrjun október. Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, var ólíkt veiðinni undanfarin haust að svo virðist sem síldin hafi enn ekki gengið inn í Breiðafjörðinn. Þá var helsta veiðisvæðið á sundunum í nágrenni Stykkishólms en að þessu sinni var veiðisvæðið í Kolluálnum eða töluvert fjarri landi.