Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Miðaftann. Fjórði Mánadagur í Tvímánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. nóvember. 2014 04:35

Endurupptaka á máli Jóns Hreggviðssonar í Bíóhöllinni á föstudaginn

Gamanleikurinn „Síðbúin rannsókn - endurupptaka á máli Jóns Hreggviðssonar“ verður sýndur í Bíóhöllinni á Akranesi á föstudaginn. Það er leikhópurinn Kriðpleir sem sýnir verkið en hópurinn er þekktur fyrir frekar sérstakan leikstíl. „Þeir búa til skrýtnar kringumstæður, sem eru oft fyndnar og vandræðalegar,“ segir Bjarni Jónsson, höfundur verksins. Að sögn Bjarna er Bíóhöllin kjörinn vettvangur til að sýna gamanleikinn þar sem töluverðu myndefni verður varpað upp á tjald. „Verkið fjallar einmitt um þrjár persónur, sem láta sig dreyma um að gera leikna heimildamynd um Jón Hreggviðsson. Sagan vindur upp á sig og þeir fara að rannsaka böðulsmorðið – hinn meinta glæp sem Jón var dæmdur fyrir – 330 árum eftir að hann gerðist. Þeir finna söguslóðirnar og sökkva sér ofan í þetta eldgamla mál í von um að hafa þannig áhrif á gang sögunnar,“ segir Bjarni. Leikarar í sýningunni eru Ragnar Ísleifur Bragason, Friðgeir Einarsson og Árni Vilhjálmsson. Leikstjórn er í höndum Friðgeirs Einarssonar en Tinna Ottesen sér um umgjörð og Janus Bragi Jakobsson kvikmyndagerðarmaður um myndvinnslu.

Hugmyndin að verkinu fæddist á Akranesi

Bjarni er brottfluttur Skagamaður, bjó þar til tvítugs. Hann á allar sínar ættir að rekja á Skagann, en foreldrar hans eru Jón Trausti Hervarsson og Júlíana Bjarnadóttir. Hann segir hugmyndina að verkinu hafa vaknað á Akranesi. „Ég var lengi búinn að pæla í Jóni Hreggviðssyni. Enda gerðist sú saga eiginlega við bæjardyrnar hjá manni. Ég ólst upp á Grundunum og lék mér oft sem strákur uppi í Akrafjalli og í grennd við Reyni, bæinn sem kallinn bjó á. Maður var því búinn að velta honum fyrir sér oft í gegnum tíðina.“ Leiklistaráhugi Bjarna vaknaði í Fjölbrautaskólanum á Akranesi þegar hann tók þátt í uppsetningum Leikklúbbs nemendasfélagsins. „Ég fann mig algerlega í því. Ég hafði verið að skrifa ljóð og texta, verið í hljómsveitarstússi. En leiklistin sameinaði svo margt, svo sem textagerðina og að geta skrifað og unnið í hóp, líkt og í hljómsveit.“ Eftir tvítugt flutti Bjarni til München í Þýskalandi, þar sem hann nam leikhúsfræði. „Ég kem heim 1994 og hef verið starfandi sem höfundur, þýðandi og svokallaður „dramatúrg“ síðan. Sem dramatúrg starfar maður nálægt því að vera höfundur, vinnur mikla hugmyndavinnu náið með leikstjóra eða leikhússtjóra,“ útskýrir Bjarni. Hann hefur samið nokkuð mörg leikverk á sínum ferli, bæði til sýninga í leikhúsi og flutnings í útvarpi. Þekktust þeirra eru leikverkin Kaffi og Óhapp, sem bæði voru sýnd í Þjóðleikhúsinu og tilnefnd til Norrænu leiklistarverðlaunanna árin 2000 og 2008. Þá hlaut hann Norrænu útvarpsverðlaunin 2004 fyrir Svefnhjólið sem Bjarni framleiddi ásamt hljómsveitinni Múm.

 

Verkið á líka heima á Akranesi

Hann segir að 2008 hafi verið uppi vangaveltur um hvernig mætti efla menningarstarfsemi á Breiðinni á Akranesi. „Við vorum hópur fólks ásamt fulltrúum frá Akraneskaupstað að velta fyrir okkur hvað væri hægt að gera. Þar kviknaði m.a. hugmyndin að verkinu um Jón Hreggviðsson. Akraneskaupstaður og Orkuveitan styrktu verkefnið í upphafi en þessar hugmyndir dóu einhvern veginn í kjölfar hrunsins.“ Bjarni gekk þó áfram með Jón Hreggviðsson í maganum. Hann segir Kriðpleir-leikhóp hafa sótt um styrk til leiklistarráðs og fengið úthlutun fyrr á þessu ári. „Það lá alltaf í augum uppi að verkið ætti líka heima á Akranesi. Sagan gerist hringinn í kringum Akrafjallið. Og við sýnum söguslóðirnar. Það tók nú okkur smá tíma að finna þær, enda eru 330 ár síðan og landslagið hefur breyst mjög mikið á þeim tíma,“ segir Bjarni.

 

Alls ekki þurr upprifjun

Jón Hreggviðsson var dæmdur til dauða fyrir að drepa kóngsins böðul og eyddi meira en þrjátíu árum ævi sinnar í að fá sig saklausan. Líkt og margir vita sagði Halldór Laxness sögu Jóns í skáldsögu sinni, Íslandsklukkunni. „Það má segja að Halldór Laxness hafi búið til þessa persónu sem við þykjumst öll þekkja. En maður sér að hann hefur tekið sér töluvert skáldaleyfi. Jón bjó til dæmis á Litlu Fellsöxl meiri part ævinnar en Halldór býr til einn bæ úr tveimur og talar bara um Rein. Hann sníðir Jón og hans sögu algerlega að bókinni sinni,“ segir Bjarni. Mikil heimildarvinna átti sér stað þegar verkið „Síðbúin rannsókn“ var skrifað. Hópurinn leitaði meðal annars til stofnunar Árna Magnússonar og fann ýmis áhugaverð gögn á Þjóðskjalasafni Íslands. „Eins notaðist ég við bókina Rætur Íslandsklukkunnar, sem er doktorsritgerð Eiríks Jónssonar bókmenntafræðings frá 1980. Sú bók var umdeild á sínum tíma en í henni er rakið hvaðan Halldór fær heimildir sínar. Hún sýnir meðal annars greinileg líkindi á milli Snæfríðar Íslandssólar og Scarlett O‘Hara úr Á hverfanda hveli eftir Margaret Mitchell. Karlinn leitaði víða fanga.“ Snæfríður Íslandssól kemur að vísu ekki við sögu í verki Bjarna. „Við einbeitum okur algerlega að máli Jóns og reynum að komast til botns í því. Við höfum komist að ýmsu sem ekki hefur komið fram áður. Þetta er því alvöru rannsókn.“ Bjarni tekur þó fram að mikill húmor sé í verkinu og það sé alls ekki þurr upprifjun á þessari sögu. „Þessir karakterar eru mikil ólíkindatól og margt í samskiptum þeirra er einhvers konar endurómur af því sem gerist í sögu Jóns Hreggviðssonar. Það er ekki langt síðan mönnum var refsað opinberlega með ofbeldi. Og ofbeldi er enn notað til þess að halda fólki niðri.“

 

Fyndinn leikstíll

Leikhópurinn Kriðpleir var stofnaður 2012. Bjarni segir hópinn búa yfir fyndnum leikstíl sem erfitt sé að lýsa með berum orðum. „Kriðpleir er leikhópur sem fer af stað með það að markmiði að setja fram flókna hluti á einfaldan hátt. Þær fyrirætlanir geta snúist í höndunum á persónunum, oft með farsakenndum afleiðingum.“ „Síðbúin rannsókn“ er þriðja sýning leikhópsins, en fyrsta verk leikhópsins, „Blokk“ var sýnt heima í stofu hjá forsprakkanum, Friðgeir Einarssyni, sem kynnti hugmyndir sínar um framtíð Háaleitishverfisins fyrir áhorfendum. „Þarna komu fram hugmyndir um hvernig mætti lífga við hverfið og sýningin var alveg á mörkunum með að vera eins og raunverulegur húsfundur. Eiginkona Friðgeirs kom til dæmis heim í miðri sýningu og tók mann sinn afsíðis um stund, kom svo fram og byrjaði að vaska upp með miklum hávaða! Mörgum áhorfendum brá í brún; þeir voru vissir um að þetta væri allt saman fúlasta alvara,“ útskýrir Bjarni. Í fyrra setti hópurinn upp verkið „Tiny Guy / Lítill kall“ í fyrirlestrasal í Háskóla Íslands, í Mengi og síðar í Borgarleikhúsinu. Í því leikriti fjallaði leikhópurinn um mannsheilann og hugmyndina um „litla manninn“ innra með okkur sem nennir ekki að hugsa og leiðir okkur því í glötun.

Gamanleikurinn „Síðbúin rannsókn“ verður sýndur í Bíóhöllinni föstudaginn 7. nóvember kl. 20:30 og er hluti af dagskrá Vökudaga. Verkið verður einnig sýnt í Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík í nóvember og desember. Hægt er að fá miða á sýninguna á www.midi.is

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is