Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. nóvember. 2014 06:00

Lífshamingja og ógæfa Snorra Sturlusonar krufin til mergjar

Bókstofa Snorrastofu í Reykholti var fullsetin á mánudagskvöldið. Þar hélt Óskar Guðmundsson rithöfundur og fræðimaður í Reykholti annað erindi sitt af sex sem flutt verða á námskeiðskvöldum í vetur undir titlinum Ris og hnig í hamingju Snorra Sturlusonar. Í þetta sinn var talað um héraðsríki og valdaútþenslu Snorra á árum hans í Borgarfirði. Snorra var maðurinn sem gerðist einn mestur höfðingja á miklum ólgutímum á Íslandi, án þess þó lyfta neinu öðru vopni heldur en fjaðurpennanum.

 

Árið 2009 sendi Óskar Guðmundsson frá sér mikið rit um ævisögu Snorra Sturlusonar sem var uppi 1179-1241. Bókin hlaut afar góðar viðtökur. Óskar hefur æ síðan komið aftur til baka að sagnaritaranum og höfðingjanum sem sat Reykholt. „Ég hef alltaf verið að vinna eitthvað í þessum arfi síðan bókin kom út. Fyrirlestrar gefa manni tækifæri til að þróa hugmyndir sínar. Í dag er ég kannski ögn djarfari í tilgátum heldur en ég var þegar ég var að setja saman ævisögu Snorra. Í sögunni kemst maður aldrei að einhverjum endanlegum sannleika. Þetta er þróun. Ýmislegt verður manni vissulega ljósara með tímanum. Síðan breytist afstaðan til ýmissa atriða. Ég finn það til dæmis eftir því sem árin líða að ég verð sannfærðari um að Snorri hafi verið höfundur Egils sögu Skallagrímssonar. Þegar ég skrifaði ævisöguna þá opnaði ég fyrir þann möguleika og taldi up líkurnar með því. Mér þótti þær svona meiri en minni. Núna er ég algerlega sannfærður um að hann sé höfundurinn. Ég tel mig líka vita hvers vegna hann hafi skrifað þessa bók og rökstyð það meðal annars á þessu námskeiði. Það voru pólitískar ástæður á bak við það. Snorri var refur,“ segir Óskar Guðmundsson.  

 

„Þetta námskeið er fyrst og fremst hugsað fyrir áhugafólk um sögu og íslenska menningu. Það vill til að þetta hérað hýsir staði sem búa að sögu sem skiptir alla þjóðina máli og hafa þýðingu í menningarsögu Norðurlanda. Svo er fullt af skemmtilegum útúrdúrum, leiðum og afkimum í sögu Snorra Sturlusonar sem gaman er að feta á svona námskeiði, sérstaklega með fólki sem hefur lifandi áhuga á þessu,“ segir Óskar.

 

Vetrarnámskeiðið um Snorra er á vegum Snorrastofu, Landnámssetursins í Borgarnesi og Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Fyrirlestrar eru haldnir til skiptis í Snorrastofu í Reykholti og á Landnámssetrinu í Borgarnesi. Sá næsti verður 12. janúar. Þar á að tala um ástina og sálarlíf Snorra. Síðan verður haldið áfram fram á vor. Enn er hægt að skrá sig á námskeiðið á vef Símenntunar. Einnig getur fólk bókað sig á staka fyrirlestra. Nánari upplýsingar um efni námskeiðsins um þennan frægasta son Vesturlands má m. a. finna á vef Snorrastofu

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is