17. nóvember. 2014 01:25
Tveggja sólarhringa langt verkfall lækna á kvenna- og barnasviði og rannsóknasviði Landspítalans, á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hófst á miðnætti. Verkfallið hefur í för með sér verulega röskun á heilbrigðisþjónustu í landinu, líkt og í verkfallsaðgerðum lækna í lok októbermánaðar. Á Vesturlandi hefur þetta ýmis áhrif og hefur Þórir Bergmundsson framkvæmdastjóri lækninga og rekstrar hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands birt tilkynningu vegna verkfallsins á vefsíðu HVE.
Þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vesturlands verður sem hér segir:
Akranes:
Heilsugæsla: Yfirlæknir hefur viðveru á dagtíma og sinnir bráðatilfellum líkt og á kvöldin og á helgum. Bakvakt heilsugæslulæknis verður með óbreyttum hætti utan dagtíma í gegnum Neyðarlínuna-112. Endurnýjun fastra lyfja fellur niður.
Sjúkrasvið: Valaðgerðir frestast því að svæfingalæknar eru í verkfalli. Viðtalstímar lyflækna falla niður. Skurðlæknir, bæklunarlæknir og háls nef og eyrnalæknir eru ekki í verkfalli þessa daga. Bakvaktir fjögurra sérgreina verða eins og áður; lyflæknir, skurðlæknir, fæðinga og kvensjúkdómalæknir og svæfingalæknir. Þeir munu sinna, auk sjúklinga á legudeildum, bráðatilfellum en öll valstarfsemi fellur niður. Einn aðstoðarlæknir/deildarlæknir verður á staðarvakt allan sólarhringinn til að sinna bráðainnlögnum, inniliggjandi sjúklingum og tilfellum á slysastofu. Nánari upplýsingar í afgreiðslunni í síma 432 1000.
Borgarnes: Fyrri verkfallsdaginn, 17/11, hefur heilsugæslulæknir viðveru á dagvinnutíma og sinnir bráðatilvikum. Seinni daginn, 18/11, hefur yfirlæknir viðveru á dagtíma en sinnir aðeins bráðatilvikum. Læknir, sem starfar í verktöku, sinnir störfum eins og venjulega báða verkfallsdagana. Endurnýjun fastra lyfja fellur niður. Bakvakt er eins og áður utan dagvinnu. Nánari upplýsingar í afgreiðslu heilsugæslustöðvarinnar s. 432 1430.
Búðardalur: Heilsugæslulæknir er í verktöku og þjónusta verður eins og venjulega með bakvakt utan dagtíma. Nánari upplýsingar í afgreiðslu stöðvarinnar s. 432 1450.
Hólmavík: Heilsugæslulæknir eru í verktöku og læknisþjónusta stöðvarinnar er eins og venjulega á dagtíma og bakvakt er að honum loknum. Nánari upplýsingar í afgreiðslunni í s. 432 1400.
Hvammstangi: Móttaka heilsugæslulæknis verður eins og venjulega. Bakvaktaþjónusta er með hefðbundnum hætti. Nánari upplýsingar í afgreiðslu stöðvarinnar s. 432 1300.
Ólafsvík, Grundarfjörður og heilsugæslan í Stykkishólmi: Heilsugæslulæknar þar eru á verkstökusamningum og ganga til starfa sinna eins og venjulega. Sjúkrahúslæknir í Stykkishólmi er ekki í verkfalli ofangreinda daga. Nánari upplýsingar í afgreiðslum stöðvanna; Ólafsvík s. 432 1360, í Grundarfirði s. 432 1350 og í Stykkishólmi s. 432 1200.