Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. nóvember. 2014 06:01

Vigtaði ruslið í meistaramánuði

Meistaramánuður fer fram í október hvert ár. Þá skora þátttakendur sjálfa sig á hólm og setja sér ýmis markmið. Þau geta verið stór og smá. Sumir hafa til dæmis sett sér markmið um að lesa fleiri bækur eða að taka mataræðið í gegn, mæta oftar í ræktina og þannig mætti lengi telja. Ásta Kristín Guðmundsdóttir setti sér óvenjulegt markmið í meistaramánuði. Hennar meistaralega markmið var að mæla hversu mikill úrgangur kæmi frá heimilinu og hver ávinningurinn yrði af því að geta nýtt matarúrganginn til jarðgerðar, í kílóum og hlutfalli talið. Skessuhorn heyrði í Ástu Kristínu og spurði hana út í hvernig það kom til að hún ákvað að setja sér þetta markmið í meistaramánuði og hver útkoman hefði verið.

Flokkaði á Hvanneyri

„Umhverfismál og flokkun hafa verið mér hjartfólgin undanfarin ár. Þjónusta og aðgengi að flokkun var aukin til muna í Borgarnesi haustið 2010 er öllum heimilum var úthlutað endurvinnslutunnu. Ég hef nýtt mér Grænu tunnuna eftir fremsta megni en mig langaði alltaf til að gera betur. Þessi markmið í meistaramánuði þurfa ekki endilega að vera tengd heilsurækt, það er hægt að gera svo margt annað. Við smíðuðum moltukassa í september og mig langaði að sjá hverju munaði ef við notuðum hann og hvað við gætum í raun endurnýtt mikið af heimilisúrgangi hjá okkar þriggja manna fjölskyldu,“ útskýrir Ásta Kristín sem starfar hjá Veiðimálastofnun á Hvanneyri. Hún byrjaði að flokka rusl fyrir alvöru þegar hún var í námi í náttúru- og umhverfisfræði hjá LbhÍ fyrir níu árum. „Það varð ákveðin vakning hjá mér í þessum málum í námsgreinum sem tengdust sjálfbærri þróun, mengun og úrgangi. Á Hvanneyri var boðið upp á lífræna flokkun til moltugerðar og ég nýtti mér það. Auk þess safnaði ég pappír og fernum og fór með í gámastöðina í Borgarnesi,“ segir Ásta Kristín um upphafið af flokkuninni. Í dag flokkar hún allt sorp. „Ég vissi að þrátt fyrir að vera nokkuð nýtin og útsjónarsöm, þá næði ég ekki þeim árangri sem ég yrði sátt við á meðan matarleifar og þess háttar úrgangur færi í tunnuna. Þess vegna smíðuðum við jarðgerðarkassann,“ bætir hún við.

 

Ekki vond lykt

Kassi Ástu Kristínar er í útjaðri garðsins við heimili hennar í Borgarnesi. „Við ákváðum að smíða bara einn til að byrja með en stefnum á að smíða annan kassa strax næsta vor. Mér fannst bara mikilvægt að geta byrjað. Mér skilst að það taki tvö til þrjú ár fyrir úrganginn að brotna niður, þannig að þessi fer bara í niðurbrotsferli þegar hann er orðinn fullur og þá þurfum við að hafa annan kassa til að setja úrganginn í.“ Ásta Kristín notar lauf sem íblöndunarefni og segir að eins sé hægt að nota gras sem fellur til við slátt á sumrin. Þar að auki megi ákveðinn pappír fara ofan í kassann, svo sem innan úr eldhús- eða salernisrúllum og eggjabakkar. En kemur ekki vond lykt upp úr kassanum? „Ég er svo nýbyrjuð að flokka ruslið á þennan hátt að það er ekki komin reynsla á það enn, enda kalt úti á þessum árstíma. En ég hef spurst fyrir hjá vinum mínum sem eru með slíka kassa og þeir segja að það sé engin teljandi lykt af þessu. Við tókum þann pól í hæðina að sleppa því að setja fisk og kjöt í kassann, til að forðast lykt og flugur,“ segir hún.

 

Niðurstöðurnar komu á óvart

Það kom Ástu Kristínu á óvart að sjá að almennt heimilissorp minnkaði um heil 70% eftir að moltukassinn var tekinn í notkun. „Í þessu litla verkefni mínu fóru 5,7 kg í ruslatunnuna, sem fer í urðun. Það voru samtals 28 kg af rusli þennan mánuð og tæp 13 kg af því fóru í jarðgerðina. Það eru tæp 46% af heildarþyngd úrgangsins. Það þarf reyndar að taka mið af því að þessi gerð úrgangs er hlutfallslega þung.“ Ásta leggur áherslu á að þetta verkefni hennar í októbermánuði sé ekki nein viðurkennd rannsókn, en geti þó gefið ákveðna mynd af því hversu vel sé hægt að endurvinna ruslið sem fellur til á heimilum. „Með þessari flokkun náum við að endurnýta 80% af öllu sem við hendum. Það eru ekki nema rétt rúm 20% af almennu heimilissorpi sem fara í urðun,“ bætir hún við. Plast, málmur og allur pappír vóg 33,6% af heildarþyngd ruslsins. Til gaman má geta þess að Ásta er nú með litla 4 lítra fötu undir almennt rusl í eldhússkápnum og það tekur hátt í viku að fylla hana.

 

Kemur við pyngjuna

Ásta Kristín segir hvern sem er geta flokkað ruslið á þennan hátt, eða að minnsta kosti alla sem hafa einhvern stað til að geyma moltukassann. Þeir sem ekki hafi tök á því geti að minnsta kosti flokkað endurvinnanlegt sorp í grænu tunnurnar og það muni um það. „Ef maður er með endurvinnslu tunnu við dyrnar þá er þetta lítið mál. Það þarf ekki að safna miklu í einu. Það er vel hægt að flokka ruslið þó maður hafi lítið pláss, ég hef séð ýmsar sniðugar útgáfur þar sem plássið er lítið. Það hefur hver sitt lag á því.“

Hún hvetur fólk til að flokka rusl og vonast til þess að niðurstöður hennar verði til þess að vekja fólk til umhugsunar og að það nýti Grænu tunnuna eins vel og kostur er. „Þegar maður sér þetta svona sundurliðað getur maður frekar spurt sig að því hvort og hvar maður geti gert betur. Ég safnaði lífræna matarúrganginum í tveggja lítra ísbox og fór svo með boxið út þegar það fylltist. Þegar maður flokkar svona er mun auðveldara að sjá hvort maður hendir t.d. of miklu brauði eða hvort maður sýður alltaf of mikið spaghetti,“ segir hún og hlær. „Þetta hjálpar því til við að sporna gegn sóun. Kemur við pyngjuna hjá okkur öllum og er auðvitað gott fyrir umhverfið.  Með aukinni umhverfisvitund í úrgangsmálum felst sparnaður.  Það kemur eiginlega að sjálfu sér að fólk leitast við að skipuleggja innkaupin betur, nýtir hráefnið betur og sóar minnu. Auk þess er ávinningurinn fjárhagslegur og umhverfislegur í mun víðara samhengi,“ segir Ásta Kristín að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is