Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. janúar. 2015 09:47

Skagamaður í keppni bestu matreiðslumanna heimsins

Ný norræn matargerð verður þekktari á heimsvísu með ári hverju. Danskur veitingastaður hefur verið valinn besti veitingastaður í heimi í nokkur ár. Í lok nóvember síðastliðinn hlaut íslenska kokkalandsliðið tvenn gullverðlaun og endaði í fimmta sæti í heimsmeistarakeppni kokkalandsliða. Þetta er besti árangur íslenska landsliðsins í matreiðslu. Nú líður að einstaklingskeppninni Bocouse d‘Or sem er heimsmeistarakeppni einstaklinga í matreiðslu og verður haldin nú í janúar. Sigurður Helgason matreiðslumaður á Grillinu á Hótel Sögu hefur öðlast keppnisrétt í Bocouse d‘Or keppninni með góðum árangri í Evrópukeppninni síðastliðið vor. Sigurður er Skagamaður að ætt og uppruna en Helgi faðir hans var gjarnan kenndur við Málningarþjónustuna á Akranesi. Hann hefur verið liðsfélagi í kokkalandsliðinu nokkrum sinnum en var ekki með í ár vegna undirbúningsins fyrir einstaklingskeppnina. Sigurður nýtur aðstoðar þjálfara kokkalandsliðsins, sem náði svo góðum árangri í haust. Kostnaður við þátttöku í einstaklingakeppninni sem Sigurður tekur þátt í er mjög mikill. Sérstakt hlutafélag hefur verið stofnað til að halda utan um söfnun peninga vegna kostnaðar Sigurðar við keppnina. Hlutafélagið heitir Siggi Helga ehf. og er umsjónarmaður með söfnuninni Magnús H. Ólafsson á Akranesi.

Eldfjall verði skapað á bakkanum

Heimsmeistarakeppni einstaklinga fer fram í Lyon í Frakklandi 27.-28. janúar. Keppnisdagarnir eru tveir og allir 24 keppendurnir þurfa að reiða fram 14 forréttadiska og síðan einn bakka sem á er aðalrétturinn, einnig fyrir 14 manns. Sigurður tengir saman í matargerð sinni ímynd hreinleika landsins, afurðir þess og náttúrufegurð. Forsvarsmenn stuðningsmannafélagsins Sigga Helga ehf. með Magnús H. Ólafsson í broddi fylkingar telja raunverulegan möguleika á því að Íslendingar eignist besta matreiðslumann í heimi í þessari frægu keppni sem Bocouse d‘Or er. Sigurður hefur notið aðstoðar Sindra Gunnarssonar hönnuðar við að hanna bakkann. Hugmyndin er að skapa svolítið eldfjall á bakkanum þegar hann verður borið fram. Bakkinn er hringlaga 90 sm í þvermál. Grunnur bakkans er spegilstál með sandblásturs munstri til að undirstrika eldfjallið og náttúru Íslands. Eldfjallið er gert úr álstrendingum í stuðlabergsformi með álskál í formi eldgígs. Burðargrindin undir bakkanum er gerð úr áli. Aðrir íhlutir, sem tengjast matnum sjálfum, eru gerðir úr silfri. Heildarkostnaður við gerð bakkans er átta milljónir króna. Gerður hefur verið sérstakur bæklingur um þátttöku Sigurðar Helgasonar í keppninni og má nálgast hann með því að hafa samband við Magnús Ólafsson í síma 893 2002 eða senda honum tölvupóst.

 

Glæsilegur ferill

Sigurður Helgason fæddist á Akranesi 4. ágúst 1978 og lauk grunsskólaprófi frá Grundaskóla. Árið 1997 fluttist hann í Kópavoginn og hóf nám við Menntaskólann í Kópavogi og síðar í Hótel- og veitingaskólanum. Sigurður byrjaði matreiðsluferil sinn á veitingahúsinu Perlunni árið 1998. Hann var valinn matreiðslunemi ársins árið 1999 og útskrifaðist með hæstu einkunn árið 2001. Á árunum 1999 -2001 starfaði hann hjá embætti Forseta Íslands við veisluundirbúning undir sterkri leiðsögn Sturlu Birgissonar matreiðslumeistara. Að loknu námi hélt Sigurður til Lúxemborgar þar sem hann starfaði á Resturant Lea Linster´s í sex mánuði, en sá staður skartar einni Michelin stjörnu. Árið 2004 tók Sigurður við sem yfirmatreiðslumaður á Skólabrú og starfaði þar til ársins 2006. Á árunum 2006-2010 starfaði Sigurður utan lands sem einkakokkur á Englandi, Írlandi og New York. Á árunum 2004-2006 starfaði Sigurður með Íslenska kokkalandsliðinu, þar sem liðið vann til verðlauna m.a. á Ólympíuleikunum í Þýskalandi, í Scot Hot í Glasgow og í Basel í Swiss. Á undarfönum árum hefur Sigurður ferðast mikið til að skoða leiðandi veitingastaði og mótað þann matarstíl, sem hann leggur upp með í matargerð sinni í dag. Árið 2010 hóf hann störf á Grillinu í Hótel Sögu og árið 2011 tók hann þar við sem yfir matreiðslumaður og starfar þar enn.

 

Hráefni og bragð úr náttúrunni

Matreiðslustefna Sigurðar er létt og nútímaleg. Hann hefur það að leiðarljósi að hráefni fái að njóta sín til fulls með hreinu bragði, árstíðarbundnu hráefni og framandi aðferðum í eldun. Sigurður notar eingöngu hágæða hráefni, sem er það ferskasta hverju sinni og frá heimasvæði. Virðing fyrir náttúrunni skiptir Sigurð miklu. Í sinni matreiðslu notast hann við hráefni og bragð úr náttúrunni. Hann stundar hvoru tveggja skot- og stangveiðar og að tína úr landinu það sem það hefur upp á að bjóða hverju sinni. Íslensk náttúra hefur því mikil áhrif á matreiðslustefnu Sigurðar. Áhugamálin eru veiðar, fluguhnýtingar, snjóbretti, klifur og vinnan. „Það má segja að áhugamálin tengist matreislunni beint og óbeint. Vegna langra vinnudaga í heitu eldhúsi þykir mér ómissandi að eiga daga sem ég get notið undir berum himni. Ekki skemmir að vera kominn út á land, við veiðar, í göngu um landið og þá helst að tína ber, sveppi, jurtir eða vera moldugur upp fyrir haus í garðvinnu. Auðvitað snýst þetta allt um að geta aflað sér matar og að gleðja aðra með mat úr íslenskri náttúru. Það er skemmtilegt þegar bæði vinna og áhugamál fara saman.”

 

Gríðarlegur kostnaður fylgir þátttökunni

Íslenska Bocouse d‘Or Akademían styður mjög vel við bakið á Sigurði Helgasyni. Akademían útvegar æfingaaðstöðu í fimm mánuði, allt hráefni til æfinga, þjálfara, aðstoðarfólk og svo ferðina til Lyon með keppendur, farastjóra og tonn af hráefni og búnaði. Það félag er í eigu ellefu íslenskra matreiðslumeistara sem allir hafa látið mikið að sér kveða á undanförnum árum. Þeir hafa verið í fremstu víglínu fyrir Íslands hönd í ýmsum matreiðslukeppnum, sem fyrrverandi og núverandi landsliðsmenn. Sjö úr þessum hópi hafa tekið þátt í Bocuse d’Or keppninni í Lyon í Frakklandi og náð þar góðum árangri. Gríðarlegur kostnaður fylgir því fyrir Sigurð að taka þátt í þessum tveimur keppnum, Evrópukeppninni síðasta vor og nú Heimsmeistarakeppninni. Hann þarf sjálfur að bera talsverðan hluta kostnaðar við þátttökuna. Áætlaður beinn kostnaður við æfingar og sjálft ferðalagið er um 20 milljónir króna. Þess má geta að Sigurður fór með rúmlega 800 kg af eldhústækjum og -tólum í forkeppnina ásamt 150 kílóum af íslenskum matvælum. Í tilkynningu frá stuðningsmannafélagi hans segir að allur stuðningur sé vel þeginn og þegar framlög berast verði kvittun fyrir greiðslu send á viðkomandi. Styrkir til félagsins Siggi Helga ehf. bera ekki virðisaukaskatt.

 

Ef áhugasamir vilja veita Sigurði fjárhagslegan stuðning þá er reikningsnúmerið 0133-26-000700 og kennitala SiggaHelga ehf. er 700914 - 0540.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is