23. janúar. 2015 11:52
Líkt og flestir vita er í dag fyrsti dagur þorra, bóndadagurinn. Soroptimistaklúbbur Akraness hafði í mörgu að snúast í gær og morgun. Þá bökuðu klúbbfélagar pönnukökur sem síðan var ekið til fyrirtækja á Akranesi snemma í morgun. „Pönnukökurnar voru bakaðar í gærkvöldi, um 140 pönnukökur á mann. Við hittumst svo klukkan sex í morgun til að setja á allar pönnukökurnar. Í dag sendum við 3500 pönnukökur sem eru ýmist með sultu og rjóma eða sykri. Við erum 32 í klúbbnum og flestir koma á einhvern hátt að þessu. Það þarf meðal annars að hræra, pakka, telja og útbúa reikninga,“ segir Unnur Guðmundsdóttir formaður Soroptimistaklúbbs Akraness í samtali við Skessuhorn.
Unnur segir að hefðin sé orðin rótgróin enda hafa klúbbfélagar bakað pönnukökurnar frá því í kringum síðustu aldamót. Bóndadagspönnukökurnar eru aðalfjáröflun klúbbsins en ágóðinn er nýttur til góðgerðarmála. „Höfuðmarkmið Soroptimista er að styrkja og efla konur til sjálfstæðis. Við höfum til dæmis verið að styrkja HVER á Akranesi en við erum hluti af alþjóðasamtökum og styrkjum því einnig á landsvísu og erlendis,“ segir Unnur.
Klúbburinn vill að endingu nota tækifærið og koma á framfæri innilegum þökkum til fyrirtækja fyrir veittan stuðning á liðnum árum.