Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. febrúar. 2015 10:01

Komur skemmtiferðaskipa skapa sex milljarða í tekjur á ári

Á árunum 2013 og 2014 lét Hafnasamband Íslands gera könnun á því hver áhrif af komum skemmtiferðaskipa væru á efnahag landsins. Könnunin var gerð með spurningum til farþega og áhafna um borð í skemmtiferðaskipum sem áttu viðkomu í höfnum á Ísafirði, Akureyri og Reykjavík. Niðurstaða könnunarinnar er að hver farþegi kaupir fyrir 79 evrur að jafnaði, eða ríflega tólf þúsund krónur að meðaltali í hverri viðkomuhöfn skipanna á Íslandi og að meðaltali kaupir hver einstaklingur í áhöfn, sem fær landgönguleyfi, fyrir 10,85 evrur, eða 1.693 krónur.

 

 

Samkvæmt könnuninni fóru 96% farþega í land á hinum ýmsu viðkomustöðum á Íslandi sem samsvarar 227.044 farþegum og niðurstöður fyrir áhöfn sýna að 44.400 einstaklingar úr áhöfn fóru í land og gerðu innkaup. Hin beinu efnahagslegu áhrif af komum gesta með skemmtiferðaskipum mælast því 2,86 milljarðar króna. Þegar óbein efnahagsleg áhrif af komum farþega og áhafna eru reiknuð til viðbótar við beinu áhrifin er ávinningur hagkerfisins rúmir 5,33 milljarðar króna. Þessi könnun mældi aðeins hvað neysla farþega og áhafna skemmtiferðaskipa bætir íslenska hagsæld. Ýmis önnur bein áhrif koma til viðbótar þegar skemmtiferðaskip heimsækir hafnir á Íslandi. Þar má nefna hafnagjöld, kaup á vistum, skatta og umboðstekjur. Samkvæmt upplýsingum Cruise Iceland, sem vann könnunina, voru tekjur hafna af komum skemmtiferðaskipa árið 2013 um 432 milljónir króna. Tekjur ríkisins af vitagjaldi og tollskoðunargjaldi voru um 152 milljónir árið 2013 og umsýslugjöld og sorphirða eru áætluð 50 milljónir króna. Samanlögð velta af komu skipanna þegar búið er að taka með innkaup farþega og áhafna, hafnagjöld og skatta þá nema tekjur ríflega sex milljörðum króna. Könnunin leiddi einnig í ljós að miðað við 18 milljóna evra beinan efnahagslegan ávinning skapast 136 heilsárs störf í íslenska hagkerfinu og reiknuð heildarlaun uppá 777 milljónir króna. Þegar óbeinu áhrifin eru tekin með eru störfin sem skapast 238 og heildarlaunin 1,41 milljarður króna.

Farþegar voru einnig spurðir um ýmislegt sem tengdist upplifun þeirra í heimsókn á hina ýmsu áfangastaði á Íslandi. Gestirnir gáfu íbúum háa einkum fyrir vingjarnlegt viðmót og einnig fengu starfsmenn sem koma að því að þjónusta þessa farþega góða einkunn. Gestir gáfu einnig háa einkunn fyrir skipulagðar ferðir sem þeir tóku þátt í og dáðust að söguslóðum og söfnum á Íslandi. Að mati gestanna er verðlag á Íslandi fremur hátt.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is