11. febrúar. 2015 04:40
Lögreglan á Vesturlandi vill koma þeirri ábendingu á framfæri að ítrekað er það að koma upp að fólk sé svikið í viðskiptum á Netinu. Fólk sé þá að stökkva á það að kaupa einhvern varning á hinum og þessum síðum. Það leggi inn á reikning svikaranna peninga en fær svo ekki hlutinn sem átti að kaupa. Svikararnir loka svo síðunum og láta ekki ná í sig og fólk í góðri trú situr uppi með sárt ennið. „Þessi svik fara líka fram á Facebook, Barnalandi/Blandi og fleiri álíka síðum,“ segir í skeyti frá lögreglunni. Þar segir einnig að enn séu þessi „arfbréf“ að dúkka upp, sem eru búin að vera í gangi í 15- 20 ár að minnsta kosti. Fólk sé ennþá að detta í þá vitleysu að leggja inn og senda fólki út í heimi peninga í þeirri trú að það sé að fá stórfé að launum.