16. febrúar. 2015 10:40
Nú eru starfsfólk Skessuhorns af krafti byrjað að undirbúa útgáfu ferðablaðsins „Travel West Iceland – Ferðast um Vesturland 2015.“ Blaðið verður gefið út í sextánda skipti og kemur út í maí. Líkt og á síðasta ári verður bæklingurinn bæði á íslensku og ensku og rík áhersla lögð á gagnleg kort, alþjóðleg ferðaþjónustumerki, myndgæði og vönduð vinnubrögð í hvívetna. Kaflaheiti verða: Vetur á Vesturlandi, almennur kafli um landshlutann, Akranes, Hvalfjarðarsveit, Borgarfjörður, Snæfellsnes og Dalir + Reykhólar. Blaðið verður prentað og því dreift í 45.000 eintökum víðsvegar um Vesturland, á höfuðborgarsvæðinu og aðkomuleiðum í landshlutann. Samið verður aftur við dreifingarfyrirtækið R3 um að dreifa blaðinu allt árið á valda staði á höfuðborgarsvæðinu, á fjölfarna ferðamannastaði við hringveginn og á Vesturlandi. Blaðið verður sem fyrr í A5 broti og allt litprentað. Markhópar blaðsins eru erlendir ferðamenn á leið um Vesturland, Íslendingar á ferð um landshlutann og sumarbústaðafólk á Vesturlandi sem vill nýta sér fjölbreytt úrval þjónustu og afþreyingar.