16. febrúar. 2015 03:01
Kristján Árnason prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands flytur fyrirlestur í Bókhlöðu Snorrastofu í Reykholti næstkomandi þriðjudag 17. febrúar kl. 20:30 í fyrirlestraröðinni Fyrirlestrar í héraði. Fyrirlesturinn er samvinnuverkefni Snorrastofu og Miðaldastofu Háskóla Íslands og viðfangsefninu lýsir Kristján svo:
„Stundum er spurt hvort Snorri Sturluson hafi kunnað latínu, - svo þjóðleg teljast fræði hans í Eddu- og sagnalist. Hins vegar velkist enginn í vafa um að bróðursonur hans, Ólafur hvítaskáld Þórðarson, hafi verið lærður í heimstungunni. Menn gera ráð fyrir að á ferðum sínum erlendis hafi hann lært margt, og segir hann reyndar sjálfur frá því í málfræðiritgerð sinni að Valdimar Danakonungur hafi kennt sér eitt og annað um rúnir. Vitað er að Ólafur rak skóla í Stafaholti og verður að telja líklegt að sú málfræði og skáldskaparfræði sem hann fjallar um í Þriðju málfræðiritgerðinni hafi verið á námskránni. Sumir segja að þetta hafi verið prestaskóli, en mér finnst líklegra að þetta hafi verið kennsla í því sem nú heitir ritlist eða skapandi skrif, þ.e.a.s. skáldaskóli.
Margir hafa haldið því fram að Snorra-Edda hafi verið ein allsherjar kennslubók í norrænni skáldskaparlist. Og ef svo var má gera ráð fyrir að bókin hafi verið notuð til kennslu, og líklegt er að Ólafur og Sturla bróðir hans hafi verið meðal nemenda í Reykholti. Helgi Þorláksson hefur í nýrri Skírnisgrein leitt að því líkum að Snorri hljóti að hafa lært að minnsta kosti samsvarandi því sem einu sinni var kallað fjórða bekkjar latína þegar hann var í Odda. En norræn skáldskaparfræði hljóta líka að hafa verið kennd á þeim bæ. Snorri hélt því áfram í Reykholti og Ólafur í Stafaholti, sá síðarnefndi með viðbót úr fræðum Donatusar og Pricianusar.“
Kristján Árnason er fæddur 1946. Hann lauk kandídatsprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands 1974 og doktorsprófi í almennum málvísindum frá Edinborgarháskóla 1977. Hann hefur starfað við kennslu og rannsóknir, lengst af sem prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Kristján hefur ritað fjölda ritgerða og fræðibóka sem birst hafa hér á landi og á alþjóðavettvangi.
Að venju verður boðið til kaffiveitinga og umræðna á fyrirlestrinum og aðgangseyrir er kr. 500.
-fréttatilkynning