18. febrúar. 2015 06:01
Sædís Guðlaugsdóttir rekur Gróðrarstöðina Gleym-mér-ei við Sólbakka í iðnaðarhverfinu í Borgarnesi. Hún ræktar þar fjölda allskyns plantna og blóma í nýju, stóru gróðurhúsi. Sædís ákvað sem barn að verða garðyrkjufræðingur, fylgdi bernskudraumnum eftir og hefur því verið í bransanum lengi. „Bæjaryfirvöld höfðu ekki mikla trú á þessu, enda var ég ekki nema 23 ára að reyna að fá land fyrir þessa starfsemi. Það tók mig hálft annað ár að fá landið og á endanum fékk ég þetta svæði út frá Kárastöðum. Það var þáverandi hreppsstjóri, Gísli Karlsson, sem gerði góðan samning fyrir mína hönd. Þegar ég lít til baka finnst mér ég hafa notið mikils velvilja Borgnesinga því hér hafa mér staðið allar dyr opnar, margir hafa hjálpað mér ef á hefur bjátað. Svo á ég gríðarlega góð viðskipti við flestöll fyrirtæki hér, svo ekki sé talað um bæinn sjálfan. Þar á ég þónokkur handtök og blóm héðan hafa prýtt Skallagrímsgarð og opin svæði í gegnum árin,“ segir Sædís þakklát um upphafið og það sem af er starfsferlinum.
Ítarlegt viðtal við garðyrkjufræðinginn Sædísi er í Skessuhorni sem kom út í dag. Rætt er við hana um uppbyggingu stöðvarinnar, störfin að vetri og sitthvað fleira.