24. febrúar. 2015 08:47
Faxi RE kom með loðnufarm til Akraness snemma í morgun. Þetta er fimmti farmurinn sem skip HB Granda koma með til bæjarins frá því Lundey NS kom með þann fyrsta 3. febrúar.
Hingað til hafa allir farmar sem borist hafa til Akraness farið í framleiðslu á fiskimjöli og -lýsi. Nú er frysting og hrognataka hins vegar við það að hefjast hjá HB Granda á Akranesi. Allt er klárt og hópur fólks þegar mættur til starfa í gömlu Heimaskagahúsunum á hafnarsvæðinu á Akranesi. Í morgun var verið að skoða hvort loðnan sem nú barst með Faxa væri með nógu þroskuðum hrognum til að hrognavinnsla gæti hafist.
Mjög góð loðnuveiði er nú við Suðurströndina. Skipin fylla sig fljótt. Gott dæmi um það er Faxi RE því þetta er í annað sinn á tveimur sólarhringum sem skipið landar fullfermi á Akranesi.
Hér fyrir neðan er frétt Sjónvarps Skessuhorns sem var gerð fyrr í mánuðinum þegar Lundey kom með fyrstu loðnuna: