24. febrúar. 2015 10:30
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness mun funda með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu verkalýðsfélagsins. Rætt verður um hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum íslenskrar alþýðu og að sjálfsögðu mun staða kjaramála verða eitt aðalumræðuefnið. „Það hefur verið ánægjulegt að heyra á hinum ýmsu ráðamönnum þjóðarinnar að það verði að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá hvatningu til verkalýðshreyfingarinnar að nota krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana. Það liggur fyrir að krónutöluhækkanir koma þeim tekjulægstu að sjálfsögðu hvað best,“ segir Vilhjálmur. Formaðurinn mun einnig ræða nýfallinn verðtryggingardóm við ráðherra og mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í að afnema hér verðtryggingu á neytendalánum. „Menn mega ekki sofa á verðinum þó verðbólgan sé lág um þessar mundir því óréttlætið sem fólgið er í verðtryggingunni er svo gríðarlegt þar sem fjármálafyrirtækin eru tryggð í bak og fyrir á meðan neytendur standa eftir varnarlausir. Þetta getur leitt það af sér eins og dæmin sönnuðu í hruninu að allur eignarhluti íslenskra heimila sogist burt þegar verðbólgan lætur á sér kræla og færist yfir til fjármálakerfisins. Enda gengur það ekki upp að hér sé fámenn útvalin elíta sem geti fengið að vera með fjármuni sína verðtryggða á meðan íslenskt launafólk nýtur ekki sömu réttinda,“ segir Vilhjálmur Birgisson.