27. febrúar. 2015 11:01
Lið Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi mætir Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í undanúrslitum Gettu betur miðvikudaginn 4. mars næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn í sögu skólans sem lið úr FVA kemst í undanúrslit og liggur því mikið við. Blaðamaður Skessuhorns leit inn í skólastofuna sem krakkarnir í liði FVA halda til í þessa dagana og forvitnaðist um undirbúninginn og stemninguna fyrir keppnina.
Mikill tími fer í lestur
Þau Anna Chukwunonso Eze, Elmar Gísli Gíslason og Jón Hjörvar Valgarðsson hafa komið sér vel fyrir í kennslustofu á annarri hæð skólans. Þar halda þau til nánast öllum stundum, lesa, skrifa staðreyndir á töflurnar, spila og horfa á gamla þætti af Gettu betur. Það krefst mikillar vinnu og undirbúnings að ná góðum árangri í keppni eins og Gettu betur. „Það er fáránlega mikill tími sem fer í að lesa. Við lesum mest á Wikipedia síðum og í raun allt það sem okkur finnst líklegt að gæti komið upp. Svo erum við líka búin að horfa á margar gamlar keppnir, í raun allt of margar,“ segja þau hress. Liðsmennirnir segjast mæta í skólastofuna góðu á morgnana og þar haldi þau til fram á kvöld, jafnvel fram á nótt.
Rætt er við krakkana í Gettu betur liðinu í Skessuhorni vikunnar. Þar segja þau frá undirbúningnum, stemningunni, hjátrúnni sem fylgir þeim og fleira.