27. febrúar. 2015 02:01
Hér á árum áður biðu margir með spenningi stjórnmálaumræðna í þinginu sem kenndar voru við eldhúsdag. Trúlega hefur áhugafólki um það útvarps- og sjónvarpsefni fækkað talsvert í seinni tíð, kannski mjög. Margir tala um að gömlu stjórnmálamennirnir hafi verið miklu litríkari en þeir sem eru á þingi í dag. En kannski er þetta eitt af því úr minningunni sem gullbjarma slær á. Þeir áttu það til að rífa kjaft sumir í ræðustól í þinginu og ef minni blaðamanns förlast ekki þá var Skúli Alexandersson frá Hellissandi einn af þeim. Núna er Skúli nánast einn eftir af þessum gömlu kempum. „Guðni var reyndar líka með mér í þinginu,“ segir Skúli og hlær sínum dillandi hlátri þar sem blaðamaður Skessuhorns situr á spjalli við hann upp á þriðja hæð á dvalarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði. Þangað flutti Skúli ásamt konu sinni Hrefnu Magnúsdóttir fyrir tæpum mánuði. Við erum aðeins að drepa á lífsferil Skúla og blaðamaður rekur leiðina í megindráttum, frá Árneshreppi á Ströndum, á Hellissand og í Hafnarfjörð. Þetta hljóta að vera viðbrigði núna? „Nei, ekki svo. Hérna líður okkur vel og það er vel um fólk hugsað. Ég er nú að verða níræður þannig að það hlaut að koma að því að ég þyrfti á þessari þjónustu að halda eins og aðrir,“ segir Skúli um leið og hann teygir sig í hljóðtakkann á útvarpinu. Það eru komnar fréttir og enn má helst ekki missa af neinu sem er að gerast. Skúli hefur verið með puttann á slagæð aftinnulífsins frá því hann var smágutti á síldarplönunum í Djúpuvík og alveg fram undir þetta.