27. febrúar. 2015 09:00
Dagana 9.-13. mars næstkomandi munu fulltrúar frá HINT háskólanum í Noregi vera á ferð og flugi um Ísland að kynna háskólanám í tölvuleikjahönnun og margmiðlun. Þetta er þriðja árið í röð sem fulltrúar háskólans koma til landsins að kynna námið en nú þegar eru yfir tuttugu íslenskir nemendur við háskólann. Ekkert sambærilegt nám er í boði á Íslandi og hafa Íslendingar sýnt náminu mikinn áhuga.
Kynningarfundir verða meðal annars haldnir á þessum stöðum: Þriðjudagur 10. mars kl. 10:30 í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og kl. 14:40 þann sama dag í Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi. Norskt háskólanám er ókeypis ef frá eru talin 12.000 króna annagjöld. Nám af þessu tagi hleypur víða annarsstaðar á milljónum króna. HINT háskólinn er vel tækjum búinn og kennarahópurinn er alþjóðlegur og býr yfir margra áratuga reynslu af svo til öllu sem tengist bæði tölvuleikjahönnun og margmiðlunartækni. Nemendur fá að nokkru marki að velja sér áhugasvið og því finna allir eitthvað við sitt hæfi. Meðal viðfangsefna nemenda er þrívíddarteikning, kvikmyndun, ljósmyndun, hljóðvinnsla, forritun, leikstjórn, framleiðsla og ritstjórn, svo nokkuð sé nefnt, segir í tilkynningu vegna heimasóknar fólksins frá HINT háskólanum.