27. febrúar. 2015 11:00
Áhugavert námskeið í hestabogfimi haldið á Suðurlandi
Helgarnar 10.- 12. og 17.- 19. apríl í vor verða haldin námskeið í hestabogfimi á vegum íþróttafélagsins Freyju í reiðhöll Eldhesta í Ölfusi. Hestabogfimi er forn asísk bardagalist sem byggist á jafnvægi milli hins líkamlega og andlega í samskiptum manns og hests. Kennari er hin heimsþekkta Pettra Engeländer sem rekur sinn eigin skóla, Independent European Horseback Archery, í Þýskalandi.
Námskeiðin eru bæði ætluð börnum og fullorðnum. Reynsla af bogfimi er ekki skylda og þátttakendur þurfa ekki að vera reyndir knapar. Hægt er að koma með eigin hest á námskeiðið eða fá lánaðan á staðnum. Þátttakendur koma til með að gera jafnvægisæfingar bæði á jörðu og á baki, kenna hestinum að venjast sínu nýja hlutverki og læra að skjóta af boga, fyrst á jörðu niðri og svo ríðandi. Enn eru örfá sæti laus á námskeiðin og geta áhugasamir séð meira á Facebook undir: „Iceland Horseback Archery“
-fréttatilkynning