27. febrúar. 2015 09:35
Löndunarbið er nú hjá skipum sem koma með loðnu til löndunar á Akranesi. Verið er að landa úr Hoffelli II og Faxi RE bíður við bryggju með fullfermi.
Loðnuflotinn er nú við veiðar í grennd við Eldey út af Reykjanesi. Loðnugangan er á fleygiferð í átt að Faxaflóa. Fremsti hluti hennar fór í gegnum Húllið svokallaða við Reykjanesið í nótt og þá er skammur vegur eftir á hrygningarslóðir í Flóanum.
Líklegt má telja að mörg skip fái afla nú í dag. Með því að smella á myndirnar hér fyrir ofan má sjá Faxa og Hoffell II í Akraneshöfn nú í morgun auk korts sem sýnir staðsetningu skipanna á miðunum núna.