Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
27. febrúar. 2015 03:01

Háskóladagurinn er á morgun

Háskóli Íslands, ásamt fleiri háskólum, býður landsmönnum öllum í heimsókn á Háskóladaginn sem haldinn verður hátíðlegur á morgun, laugardaginn 28. febrúar, milli klukkan 12 og 16. Auk kynningar á hátt í 400 námsleiðum við skólann verður boðið upp á ótal viðburði á sviði vísinda og lista, þar á meðal ókeypis ferðir um himingeiminn í stjörnutjaldinu, þýðingarsamkeppnina Þýddu betur, kennslu í endurlífgun og handtökin á skurðstofunni ásamt stærstu gestabók Íslandssögunnar. Hæfileikafólk úr hópi stúdenta lætur ekki sitt eftir liggja og treður upp með tónlist á ýmsum stöðum á háskólasvæðinu. Fluttar verða  m.a. ballöður, japanskur söngur, ljóð, pönk, kórsöngur og blús auk þess sem ein vinsælasta hljómsveit landsins, Ambadama, heldur tónleika í

Stúdentakjallaranum að kvöldi Háskóladagsins.

Háskóladagurinn hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem árlegur kynningardagur háskóla landsins og hefur hann notið fádæma vinsælda undanfarin ár. Öll fimm fræðasvið Háskóla Íslands taka virkan þátt í deginum og verða námskynningar þeirra á eftirtöldum stöðum:

 

- Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð

- Heilbrigðisvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð

- Hugvísindasvið: Aðalbygging

- Menntavísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð

- Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja

Ókeypis ferðir um himingeiminn í Öskju.

 

Dagskráin í þessum byggingunum þremur hér að ofan verður einkar fjölskrúðug. Í Öskju verða til að mynda sýningar í stjörnutjaldinu á tuttugu mínútna fresti frá kl. 12.20 en þar er boðið upp á ókeypis ferðir til tunglsins og reikistjarnanna í stórskemmtilegri sýningu. Enn fremur gefst gestum kostur á að heimsækja tilraunastofur vísindamanna í Öskju þar sem ýmislegt forvitnilegt úr náttúrunni ber fyrir augu. Eldfjallafræðingar glóðarsteikja pylsur í Öskju og bjóða jafnframt fólki að handfjatla funheitt Holuhraun með gosi. Fulltrúar Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar verða með jarðskjálftaborð og verkfræðinemar í liðinu Team Spark sýna rafknúna kappakstursbílinn TS14 sem keppti á Silverstone-kappakstursbrautinni í fyrrasumar en þar fékk liðið verðlaun sem bestu nýliðarnir í sínum flokki.

 

Þýddu betur og ómur söngva í Aðalbyggingu

Fulltrúar Hugvísindasviðs brydda upp á ýmsu á í Aðalbyggingu á Háskóladaginn. Þannig verða fulltrúar þýðingarfræðinnar með samkeppnina Þýddu betur sem ætluð er gestum og gangandi og þá munu ritlistarnemar standa fyrir nokkurs konar samyrkju þar sem gestir leggja til eina línu hver í ljóð sem lengjast mun eftir því sem líður á daginn. Tónlist og dans skipa einnig stóran sess í dagskránni í Aðalbyggingu enda er hljómurinn undir silfurbergshvelfingunni í anddyri byggingarinnar einstakur. Meðal þeirra sem troða þar upp eru Háskólakórinn og Húsbandið og þá verður stiginn japanskur nútímadans og salsadans á flísum Aðalbyggingar.

 

Endurlífgun, heilsuráð og stærsta gestabók landsins

Á Háskólatorgi verður líf og fjör frá upphafi til enda Háskóladagsins. Hjúkrunarfræðinemar munu halda lífi í mannskapnum með endurlífgunarkennslu með áherslu á hjartahnoð, Heilsutorg háskólanema býður upp á ávexti og leik með heilsuráðum og hinn landsþekkti skurðlæknir og prófessor Tómas Guðbjartsson mun ásamt nemendum Læknadeildar gefa gestum kost á að upplifa stemninguna á skurðstofunni. Þá bjóða fulltrúar næringarfræðinnar upp á mælingu á líkamsástandi. Enn fremur stefna nemar í tómstunda- og félagsmálafræði á Menntavísindaviði á met með stærstu gestabók Íslandssögunnar. Félagsvísindasvið er fjölmennasta fræðasvið skólans og fulltrúar þess velta upp ýmsum spurningum um allt milli himins og jarðar á torginu. Á að leggja sæstreng til Bretlands? Er metanvæðing ávinningur fyrir alla eða bara prump? Er Bitcoin alvöru peningur? Á að framleiða snjó í Bláfjöllum?

 

Á 2. hæð á Háskólatorgi verða einnig fulltrúar frá Skrifstofu alþjóðasamskipta og náms- og starfsráðgjöf. Jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands verður á staðnum, Jafnréttisnefnd, Ráð um málefni fatlaðs fólks, Q - félag hinsegin stúdenta og Femínistafélag Háskóla Íslands. Fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta veita einnig upplýsingar um Stúdentagarða, Leikskóla stúdenta og aðra þjónustu fyrir stúdenta við Bóksölu stúdenta á torginu og þá má ekki gleyma hinum sívinsæla Vísindavef sem verður með þrautir og svör fyrir gesti Háskóladagsins.

 

Stanslaust stuð í Stúdentakjallaranum

Hæfileikafólk úr hópi nemenda Háskóla Íslands mun ekki láta sitt eftir liggja á Háskóladeginum og m.a. halda uppi stuðinu í hinum geysivinsæla Stúentakjallara á fyrstu hæð Háskólatorgs. Meðal þeirra sem troða upp eru Húsbandið, blúsrokkbandið Johnny And the Rest, Maurice & Friends sem flytja ljóð undir frumsamdri tónlist, söngkonan og lagasmiðurinn Rebekka Sif og pönk/rokkbandið BíBí og Blakkát auk þess sem boðið verður upp á dægurlagadúetta og söngleik nemenda.

Stórsveitin Ambadama slær svo botninn í fjöruga dagskrá Háskóladagsins í Háskóla Íslands með tónleikum í Stúdentakjallaranum kl. 20 en aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

Háskóli Íslands verður hins vegar ekki eini háskólinn með kynningu á Háskólatorgi því Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri kynna nám sitt á 1. hæð torgsins. Listaháskóli Íslands verður þar einnig ásamt Keili sem kynnir sína landsþekktu háskólabrú. Tæknifræðinám Keilis verður hins vegar kynnt í Öskju.

 

Á fyrstu hæð Háskólatorgs verða líka fulltrúar frá SÍNE, AIESEC, Byggingafélagi námsmanna, Háskólaútgáfunni, Ritveri Hugvísindasviðs, Háskóladansinum, LÍN og Happdrætti Háskóla Íslands.

 

Sprengjur, dans og lifandi vísindi í Háskólabíói

Það verður einnig nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna í Háskólabíói en þar munu félagar úr Sprengjugengi Háskóla Íslands, sem er fyrir löngu orðið landsþekkt, verða með kraftmiklar og litríkar sýningar í sal 1. Sýningarnar verða kl. 13.00 og 14.30 og er gott að koma tímanlega til að tryggja sér sæti.

 

Háskóladansinn mun enn fremur sýna listir sínar og boðið verður upp á Vísindabíó í salnum á undan og eftir sýningum Háskóladansins og Sprengjugengisins. Þá mun japanskt shamisen-tónlistaratriði taka á móti gestum í bíóinu.

 

Auk þess verður Vísindasmiðjan sívinsæla opin frá 12-16 í Háskólabíói. Þar getur öll fjölskyldan kynnt sér undur vísindanna með lifandi hætti enda er þar fléttað saman leik og ljóma vísindanna.

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst verða með námskynningar í húsakynnum Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir allar sínar námsleiðir í sínum húsakynnum á Laugarnesvegi.

 

Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.

 

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is