06. mars. 2015 04:57
Í dag var tekin fyrsta skóflustunga að fjölbýlishúsi við Arnarklett í Borgarnesi. Það er fyrirtækið Arnarklettur 28 ehf sem byggir en það er í eigu SÓ Húsbygginga ehf í Borgarbyggð og Trésmiðju Snorra Hjaltasonar í Reykjavík. Það var Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri sem stýrði gröfunni frá Borgarverki sem tók skóflustunguna og hóf þannig á táknrænan hátt jarðvegsskipti sem marka upphaf framkvæmda. Áætlað er að bygging hússins taki um tíu mánuði og stefnt að því að ljúka framkvæmdum um næstu áramót, að sögn Jóhannesar Freys Stefánssonar, framkvæmdastjóra SÓ Húsbygginga. Húsið verður fjórar hæðir með 16 íbúðum auk geymsluhúss á lóð.