Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
10. apríl. 2015 08:00

Söngleikurinn Grease frumsýndur í Bíóhöllinni í kvöld

Nú í kvöld verður söngleikurinn Grease frumsýndur í Bíóhöllinni á Akranesi á vegum leiklistarklúbbs nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands. Þetta er í fyrsta sinn sem Grease er settur upp á Skaganum. Uppsetningin er stór í sniðum, alls koma hátt í 70 manns að henni með einum eða öðrum hætti.

 

Leikstjóri sýningarinnar er Skagamaðurinn Hallgrímur Ólafsson, oftast kallaður Halli Melló. Hann segir æfingar hafa gengið vonum framar en þó sé ýmislegt sem enn þurfi að huga að. „Leikhús gengur aldrei fyrr en rétt fyrir frumsýningu, þetta er bara endalaus vinna,“ segir Halli og nefnir að æfingaferlið blekki með tímanum þá sem standa að uppsetningunni. „Það er æft í margar vikur, allir löngu hættir að hlæja að bröndurunum. Maður veit aldrei fyrr en áhorfendur koma hvort þetta er gott eða ekki,“ bætir hann við og segir það gilda um allar uppsetningar, bæði í áhuga- og atvinnuleikhúsum.

 

Ferlið sé í grunninn alltaf það sama, munurinn á atvinnu- og áhugaleikhúsi birtist fyrst og fremst hjá þeim sem koma að uppsetningu verkanna. „Í atvinnuleikhúsi er þetta náttúrulega það sem maður starfar við. Maður mætir í vinnuna og veit nákvæmlega hvað maður gerir þann daginn. Svona áhugaleikhús er að vissu leyti líflegra. Hér fylgist maður með krökkunum bæta færni sína stórlega á örfáum vikum, það sér maður vitanlega ekki hjá atvinnuleikurum. Það eru meiri læti á bak við, sérstaklega þegar maður vinnur með þessum aldurshópi,“ segir Halli og brosir. „Síðan er mjög skemmtilegt að sjá þessa ofboðslegu tilhlökkun til lokaniðurstöðunnar. Hér var ég til dæmis spurður þremur vikum fyrir frumsýningu hvenær við myndum æfa uppklappið og hvernig við hneigjum okkur. Það er það sem mér þykir leiðinlegast,“ bætir hann við og hlær.

 

Hjördís Tinna Pálmadóttir og Heiðmar Eyjólfsson fara með hlutverk aðalpersónanna Sandy og Danny. Aðspurð hvernig mótun persónanna hafi gengið segja þau hana langt komna en ljúki líklega ekki fyrr en á frumsýningardegi. „Sandy er þessi ljúfa og góða stúlka sem veit samt alveg hvað hún syngur,“ segir Hjördís Tinna sem kveðst tengja aðeins við persónu hennar. „Sú Sandy sem ég leik er kannski aðeins ákveðnari við Danny en sú sem birtist í bíómyndinni,“ bætir hún við.

 

Heiðmar tekur undir með Hjördísi Tinnu og nefnir að hann byggi sinn Danny mikið á bíómyndinni. „Ég get reyndar ekki dansað eins og hann,“ segir Heiðmar og hlær. Bæði Hjördís Tinna og Heiðmar hafa sungið opinberlega við hin ýmsu tilefni og segja sönginn ekki hafa vafist mikið fyrir þeim. „Við ætlum að syngja þetta í upprunalegu tóntegundunum, það hefur ekki verið vandamál,“ segja þau.

 

Tónlistin er fyrirferðamikill hluti sýningarinnar. Það skiptir leikstjórann miklu máli að flutningur hennar sé lifandi. „Hún gegnir mjög stóru hlutverki í sýningunni. Þetta eru mikil söngatriði, tengd eru saman með leikþáttum. Þess vegna var mikilvægt að velja sterka söngvara í aðalhlutverkin, þannig verður sýningin sem best. Svo myndi ég aldrei gera þetta án þess að vera með hljómsveit. Áhorfendur eiga að fá að njóta þess að allur flutningur sé lifandi,“ segir Halli. Undirleikur verður í höndum hljómsveitar sem sérstaklega var sett saman fyrir sýninguna. Hún verður staðsett við hliðina á sjoppunni á móti aðalinngangi hússins, ekki á sviðinu. Þannig skilar hljómurinn sér sem best til áhorfendanna í salnum. „Við verðum þarna frammi með skjá þar sem við sjáum sýninguna í beinni og heyrum allt sem fram fer,“ segir Birgir Þórisson tónlistarstjóri. „Hljómsveitin verður íklædd búningum í stíl við leikarana og mun spila fyrir sýningu meðan fólk gengur í salinn, í hléinu og svo auðvitað öll lögin í sýningunni,“ bætir hann við.

 

„Þetta verður mikið fjör og við hvetjum alla til að koma og sjá þessa sýningu,“ segja þau Hjördís Tinna og Heiðmar og leikstjórinn tekur undir með þeim. „Það er alveg frábært að koma heim og sjá kraftinn í sínum gamla heimabæ, að það séu miklu fleiri tækifæri, eins og þetta, sem voru ekki til staðar þegar ég var hér. Það er fleira í boði en bara fótbolti,“ segir Halli Melló að lokum.

 

Smellið hér til að sjá Facebook-síðu söngleiksins.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Dalabyggð

Hornabú

Grundarfjarðarbær

ATH! Breyttur tími og dagsetning stofnun Matarklasa

Grundarfjarðarbær

Sorphirða

Grundarfjarðarbær

Aðalskipulag Grundarfjarðar - tillaga

Grundarfjarðarbær

Hunda- og kattahreinsun

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is